149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna afnáms ákvæða um uppreist æru.

222. mál
[20:54]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir umræðuna. Hún er fróðleg og vonandi gagnleg. Það eru fjölmargir aðrir kaflar í hegningarlögunum þar sem maður getur velt fyrir sér hvort viðkomandi ætti að fá aftur eða fá yfirleitt lögmannsréttindi eftir að hafa afplánað dóm, t.d. brot gegn friðhelgi einkalífs. Nú höfum við fengið vægast sagt ofboðslegar fregnir af því hvernig eltihrellir hefur beinlínis bolað manneskjum úr landi með fjölskyldur sínar. Við getum velt fyrir okkur frelsissviptingu. Svo er auðvitað kynferðisbrotakaflinn.

Hvað með rán? Öll ofbeldisbrot? Gróft ofbeldi? Brot gegn valdstjórninni? Hvernig ætli lögreglumanni sem hefur lent í ofbeldi af hálfu einhvers sem viðkomandi handtók liði með að mæta þeim aðila í dómsalnum sem þá væri orðinn lögmaður, verjandi eða réttargæslumaður, jafnvel sækjandi, af hálfu hins opinbera?

Þetta eru svolítið sérstök störf og það að vera brotaþoli og þurfa að mæta í dómsal þar sem skikkjuklæddi einstaklingurinn sem er lögmaður er sá sem er eða var kvalari viðkomandi fyrir fimm árum er mögulega fullgróft. Við þurfum að velta fyrir okkur hvort þetta sé ákjósanlegt. Eru það borgaraleg réttindi að fá aftur (Forseti hringir.) heimild til starfa sem lögmaður eftir að hafa afplánað refsingu? Ég held að þingið verði að ræða það.