149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna afnáms ákvæða um uppreist æru.

222. mál
[20:56]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Vissulega megum við spyrja okkur að því og ég veit til þess að það er til eitthvað af málum frá Mannréttindadómstólnum sem tekur á þessu, aðgengi að lögmannastéttinni svo að segja. Eftir því sem ég man best eru þar tilmæli um að starfssvipting sem þessi eigi helst ekki að vera ótímabundin og að einhver lögmæt sjónarmið eigi að liggja að baki því hvort hægt sé að veita slík réttindi aftur.

Af þessu tilefni vil ég koma því á framfæri hvort brotaþolar eigi líka að þurfa að sitja undir því að einstaklingur sem braut á þeim bjóði sig fram til Alþingis og að aldrei hafi verið birt nafnið hans þegar hann var dæmdur. Ef næsta frumvarp dómsmálaráðherra verður að lögum á að hætta að birta nafn brotamanna í kynferðisbrotamálum eða öðrum málum sem hv. þingmaður nefndi, eins og eltihrella. Þetta eru allt saman mál sem myndu falla undir þetta nýja frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra um að hætta að birta nöfn brotamanna í svokölluðum viðkvæmum málum.

Ég velti fyrir mér hvernig kjósendur eigi þá að vita það, ef þessari birtingu verður hætt, og hvort samfélagið eigi ekki smáheimtingu á að vita hvort það sé að kjósa eltihrella eða kynferðisbrotamenn eða barnaníðinga á þing. Það er ein afleiðingin af þessu frumvarpi í samhengi við annað frumvarp sem boðað hefur verið. Ég hef talsverðar áhyggjur af því líka.