149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna afnáms ákvæða um uppreist æru.

222. mál
[20:58]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegur forseti. Í málum af þessum toga hafði um árabil, áratugum saman, jafnvel öldum saman, verið haft lágt. Þetta voru mál sem fóru hljóðlega, voru útkljáð í hljóði, voru útkljáð inni í bakherbergjum og fóru sína leið, voru afgreidd og mönnum greidd leið á ný bakdyramegin inn í hásali valdsins, inn í staði þar sem þeir gátu verið í aðstöðu til að beita annað fólk ofríki.

Við munum tildrög þess máls sem við ræðum hérna núna. Þau voru þau að hópur fólks tók að hafa hátt um þessi mál, lét ekki bjóða sér þessa afgreiðslu, vakti athygli á henni svo þjóðin öll heyrði og þjóðarathygli vakti. Þá fór af stað þróun sem enn er í gangi og þetta mál hér er hluti af þeirri þróun. Við tökum þátt í því sem er ánægjulegt. Ég tel að þetta mál sé til bóta og styð það. Ég vil gjarnan fá að koma upp í þennan ræðustól sem einn af kannski fáum þingmönnum sem ekki er löglærður og fá að lýsa skoðunum mínum á þessu máli og lýsa yfir stuðningi mínum við það.

Uppreist æru. Þetta er orðalag sem ég held að sé alveg áreiðanlega ekki tilviljun að enginn skildi þegar það kom skyndilega upp í þjóðfélagsumræðunni, því skaut skyndilega upp og þá botnaði enginn almennilega í þessu.

Uppreist. Hvað er átt við? Uppreist æru. Þetta var ankannalegt orðalag, fornfálegt, eiginlega næstum því biblíulegt. Þetta var eins og eitthvað úr Biblíunni, var eins og Jesús kæmi og rétti Lasarusi höndina og reisti hann upp. Maður fékk einhvern veginn þannig tilfinningu fyrir þessu að einhver einstaklingur lægi í valnum, yrði reistur upp og maður segði bara: Far þú og syndga ekki framar. Tak sæng þína og gakk. Viðkomandi einstaklingur gat þá bara farið aftur að sinna sínum störfum, jafnvel óhæfuverkum eins og dæmin sanna.

Þetta byggir á einkennilegum skilningi á orðinu æra vegna þess að eins og hæstv. dómsmálaráðherra rakti áðan verður æra ekki endurheimt með atbeina opinberra aðila. Það er ekki æra. Æra er áran sem umlykur okkur, verk okkar og framgöngu í lífinu, það orðspor sem við höfum og líka bara hvernig við komum fyrir, hvernig við komum öðrum fyrir sjónir, hvernig við virkum á annað fólk. Það er æra okkar, það eru orð okkar og það er öll framganga okkar. Opinberir aðilar geta ekki hlutast til um það. Þeir geta að vísu veitt okkur tiltekin réttindi, við megum nefnilega ekki gleyma því að þegar við komum í þennan heim erum við hlaðin réttindum. Við fæðumst til ótal réttinda sem við flest berum gæfu til þess að varðveita og nýta okkur í opnum og frjálsum þjóðfélögum. Svo getur það hent fólk að fyrirgera þessum réttindum sínum með glæpum. Þá missir það þessi réttindi sín og fer í fangelsi, afplánar dóm og svo kemur það út úr fangelsinu og eftir þann dóm endurheimtir það hluta þessara réttinda sinna. Þannig starfar réttarríkið og við styðjum það öll.

Eins og hv. þm. Helga Vala Helgadóttir vék að hérna áðan, og það er dálítið mikilvægt að við ræðum það, er ekki sjálfsagt mál að við endurheimtum öll þau atvinnuréttindi sem við kunnum að hafa haft áður en við frömdum þann glæp sem varð til þess að við misstum réttindi okkar, til að mynda rétt til lögmannsstarfa. Persóna sem er lögmaður er í valdastöðu gagnvart öðru fólki, er í flóknu trúnaðarsambandi við umbjóðendur sína og getur hæglega hagnýtt sér það samband á alls konar hátt ef þetta er óvönduð manneskja.

Við gerum sérstakar kröfur til lögmanna út af þessu. Þetta getur ekki bara, eins og mér virðist að þetta frumvarp snúist svolítið um, tekið til fjárhagsskuldbindinga, fjárhagslegra atriða eða fjárhagslegrar framgöngu, heldur hlýtur þetta líka að taka annarra glæpa.

Ég get ekki tekið undir með því hvernig hæstv. ráðherra brást við því sem mér fannst vera mjög mikilvæg og réttmæt ábending hjá hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, um að svona skilyrði ættu líka að taka til kennara. Þá sagði hæstv. ráðherra eitthvað á þá leið að hún teldi það eiginlega handahófskennda takmörkun á atvinnuréttindum að persóna fengi ekki að starfa við kennslu eftir að hafa verið dæmd fyrir glæp gegn barni. Ég get sem sagt ekki fallist á að slík takmörkun á atvinnuréttindum sé handahófskennd takmörkun á atvinnuréttindum, bara alls ekki. Hún er einmitt ekki handahófskennd, hún er nákvæm og mikilvæg og þannig getum við haldið áfram gagnvart flestum stéttum sem starfa með börnum.

Við erum sem sé á þessari vegferð, við erum að taka á síbrotamönnum og því hvernig við eigum að eiga við þá. Við þurfum líka að passa upp á mannréttindi, það er alveg sjálfsagt mál. Við þurfum að gæta þess, eins og hv. þm. Helga Vala Helgadóttir benti á, að við höfum í heiðri jafnræði og meðalhóf. Ég tek undir það í öllu þessu máli, nú sem endranær.