149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna afnáms ákvæða um uppreist æru.

222. mál
[21:10]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðu um þetta frumvarp fyrir umræðuna. Ég heyri það og greini að menn virðast hafa mismunandi skoðanir á frumvarpinu en þó sakna ég þess að menn hafi lýst í umræðum nákvæmlega afstöðu sinni til málsins efnislega. Ég hygg að það kunni að fara svo að einhverjum finnist ákvæðin hér vera helst til ströng á meðan öðrum finnist þau jafnvel ekki nógu ströng. Það verður áhugavert að sjá hvernig umræðan þróast í þinginu og er til margra þátta að líta fyrir hv. allsherjar- og menntamálanefnd sem fær málið til umfjöllunar.

Ég vil koma inn á orð hv. þm. Guðmundar Andra Thorssonar sem nefndi að honum hefði fundist umræðan um uppreist æru almennt ekki hafa farið hátt í þjóðfélaginu í gegnum tíðina. Ég rakti það þó í framsögu minni að án þess að hafa verið sérstök áhugamanneskja um þetta fyrirbæri eða stjórnsýslu á árum áður þá vakti uppreist æru athygli mína fyrir margt löngu vegna þess að það hefur auðvitað reglulega komið fyrir í fréttum í gegnum tíðina. Það koma reglulega fréttir af því að mönnum hafi verið veitt uppreist æru. Það varð oft, eða a.m.k. í einhverjum tilvikum, tilefni til umræðu um þetta fyrirkomulag.

Við munum kannski öll sem hér sitjum, stöðu okkar vegna, eftir umræðu þegar fyrrverandi kollegi okkar á þinginu fékk uppreist æru. Ég vil því ekki taka undir að sú umræða hafi farið lágt í gegnum tíðina. Hins vegar er það þannig að þrátt fyrir þá umræðu sem hefur verið um uppreist æru í gegnum tíðina var framkvæmdinni aldrei breytt. Það er okkur svolítið til umhugsunar vegna þess að ég man eftir gagnrýni úr ýmsum áttum og vangaveltum manna um það fyrirbæri. En nú horfir það allt saman til bóta, a.m.k. frá sjónarhóli okkar sem teljum að þetta hafi verið eitthvað ankannalegt.

Hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir setur hér fram söguskoðun, þótt hún hafi ekki viljað fara efnislega út í það sem hún kallaði söguskoðun mína. Hún vék að ríkisstjórnarsamstarfinu sem var á síðasta kjörtímabili og slitum á því og fullyrti að það hefði orðið vegna þess að brotaþolum í þeim málum hafi ekki verið svarað.

Ég verð að gera athugasemd við þetta og ætla að leyfa mér að gera það. Þótt hún hafi ekki viljað gera athugasemdir við það sem hún kallar mína söguskoðun verð ég að fá að gera athugasemd við söguskoðun hv. þingmanns. Það er ekki um það að ræða að brotaþolar hafi í öllu því máli sem laut að þeirri baráttu, og við nefnum sem dæmi það sem hún vék að og minntist réttilega á, #höfumhátt, leitað sérstaklega til dómsmálaráðuneytisins eða mín um einhverjar skýringar.

Það var hins vegar þannig að ég hafði frumkvæði að því að boða brotaþola á minn fund sumarið 2017. Ég átti þar mjög gagnlega og opinskáa fundi með brotaþolum og veitti þeim upplýsingar eins og eftir þeim var leitað. Þótt það hafi kannski ekki komið fram af þeirra hálfu í umfjöllun eftir þá fundi að þeir hafi átt slíka fundi var það þannig samt að ég þurfti að hafa frumkvæði að því að kalla þá á fund þegar mér fannst menn kalla eftir upplýsingum á röngum stöðum. Það hefði verið meira upplýsandi hefðu menn beint fyrirspurnum sínum til dómsmálaráðuneytisins. Ég átti fundi með þeim þannig að ekki var um það að ræða að brotaþolum væri ekki svarað, a.m.k. ekki af hálfu dómsmálaráðuneytisins, í þeim málum sem þá varðaði.

Ég minnist þess hins vegar að ég átti gagnlegan fund, góðan og fróðlegan fund, með hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis sem sendur var út í beinni útsendingu. Hann var haldinn 19. september 2017. Á þeim fundi vék hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir að þeirri ákvörðun minni að veita ekki tilteknum einstaklingi uppreist æru, eins og ég reifaði í framsögu minni, og hafði uppi ýmsar lagalegar spurningar um vankanta á því. Mátti skilja hana sem svo að hún teldi það afar bagalegt og að jafnræðis hefði ekki verið gætt með því að veita ekki þeim kynferðisbrotamanni uppreist æru á sínum tíma.

Ég því á svolítið erfitt með að átta mig á efnislegri afstöðu sumra þingmanna hérna. Það er ýmist í ökkla eða eyra, of eða van, og erfitt að átta sig á því hvernig menn vilja horfa heildstætt til slíkra mála.

Hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur er auðvitað hugleikin sú umræða sem fór fram í kjölfarið á þessum hæstaréttardómi, eins og ég rakti í framsögu. Hún grætur það eitthvað að ekki sé vikið að því í greinargerðinni. Ég bendi á að það er einmitt tekið fram í greinargerðinni en þar segir, með leyfi forseta:

„Niðurstaða Hæstaréttar leiddi til umræðu um uppreist æru og þá stjórnsýsluframkvæmd sem tíðkast hefur síðustu áratugi við afgreiðslu slíkra mála.“

Það er vikið að þeirri miklu umræðu og enginn velkist í vafa um að umræðan um þau mál hafði áhrif á verklag og framgang málsins á Alþingi, eins og ég rakti í framsöguræðu. Þótt ég hafi tekið ákvörðun um að breyta verklaginu og fá atbeina Alþingis til þess, áður en þessi hæstaréttardómur féll, þá fór það úr mínum höndum og var ekki lengur á forræði mínu þegar þingið sjálft tók forystu í málinu og hafði frumkvæði að því að breyta almennum hegningarlögum haustið 2017, þrátt fyrir að vera ekki tilbúið með nauðsynlegar lagabreytingar því tengdu, sem nú eru að líta dagsins ljós.

Ég get alveg tekið undir þá gagnrýni hv. þm. Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur að þetta frumvarp hefði mátt koma fram fyrr en það verður ekki á allt kosið. Það er til ýmissa sjónarmiða að líta í þeim efnum og ýmis önnur störf sem þarf að sinna, en allt að einu er þetta komið fram innan þeirra tímamarka sem ég taldi nauðsynlegt að líta til til að hægt væri að ljúka málinu endanlega.

Ég vil ítreka að þetta frumvarp lýtur að þeim lagabálkum þar sem sérstaklega er vikið að óflekkuðu mannorði.

Ég tek hins vegar undir að það kunni að vera tilefni fyrir aðra en þá sem heyra undir dómsmálaráðuneytið að taka mögulega til í sínum ranni ef menn vilja skerpa eitthvað á lagaákvæðum í þeim efnum. Hér hefur verið bent á að það eru auðvitað fullt af sérákvæðum í gildi sem koma í veg fyrir að þeir sem starfa með börnum hafi gerst brotlegir við börn og þar fram eftir götunum. Það kann að vera ástæða til þess að útvíkka það eitthvað. Menn verða að meta það. Það fer allt eftir efnum og ástæðum. En ég tel ekki að farið verið í slíka lagabreytingu í þessu frumvarpi. Þó kunna að vera þarna einhver ákvæði eins og hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir benti á, t.d. varðandi barnaverndarnefndarmenn sem kosnir eru. Ástæða kann að vera til þess að bæta þeim þarna inn og ég ítreka þá ósk mína að hv. allsherjar- og menntamálanefnd skoði það sérstaklega og fleiri slík ákvæði sem kunna að koma upp á yfirborðið við nánari skoðun.

Mér finnst gæta einhvers misskilnings eða óþarfa tortryggni í garð frumvarpsins í málflutningi þeirra sem hafa lagt áherslu á að hér sé aðeins vikið að störfum eða embættum sem lúta að einhverju leyti að umsýslu peninga. Ekki er um að ræða að það hafi verið sérstakt sjónarmið hér heldur er, eins og ég hef áður nefnt, bara verið að víkja að því þegar verið er að gera óflekkað mannorð að skilyrði slíkra starfa. Það er einmitt reynt að gæta meðalhófs í frumvarpinu með því að breyta ekki réttarástandinu, þ.e. hinu efnislega réttarástandi, þótt verið sé að breyta verulega forminu á endurheimt borgararéttinda.

Endurskoðendur voru nefndir í ræðum einhverra hv. þingmanna sem vilja bera það saman við t.d. lögmannsstörfin. Það er ekkert skrýtið að menn beri það saman og velti fyrir sér af hverju munur sé á. Sá munur er á lögmönnum og endurskoðendum að lögmenn og störf lögmanna og lög um lögmenn heyra undir dómsmálaráðuneytið. Tekin var sú ákvörðun að höfðu samráði við Lögmannafélagið að kveða nánar á um skilyrði fyrir því að menn geti hlotið lögmannsréttindi sín aftur.

Eins og ég nefndi í framsögu minni var óskað eftir tillögum frá endurskoðendum, frá því ráðuneyti sem hefur með endurskoðendur að gera, um frekari breytingar á því en við fengum engin viðbrögð. Ég tel þó ekki útilokað og ekki ólíklegt að menn taki lög um endurskoðendur til endurskoðunar og líti meðal annars til ákvæða um lögmenn.

Þegar kallað er eftir því að gætt sé meðalhófs þarf auðvitað líka að líta til þess að ekki er eðlilegt að sömu skilyrði séu um öll störf, það er einmitt meðalhóf. Í meðalhófinu felst að menn þurfa að líta til atvika máls. Menn þurfa að líta til eðli starfanna sem um ræðir og það geta verið gerðar ríkari kröfur til eins embættis en minni til annarra.

Þetta þarf hv. allsherjar- og menntamálanefnd að skoða gaumgæfilega. Ég hlakka til þess að sjá afrakstur umfjöllunar nefndarinnar í þeim efnum og framhald málsins á Alþingi. Ég óska eftir góðu samstarfi við nefndina og þingmenn alla þannig að frumvarpið nái fram að ganga í einhverri mynd. Þingið kann að hafa allt aðrar skoðanir á því hvort ákvæðin séu of ströng eða ekki og sjálfsagt er að reifa öll sjónarmið. Það er ekki útilokað að frumvarpið taki þeim breytingum sem þingið kýs að gera á því. Ég kalla eftir góðu samstarfi við þingið um þetta með þá von í brjósti að málið nái fram að ganga fyrir áramót.