149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna afnáms ákvæða um uppreist æru.

222. mál
[21:22]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Enn um söguskoðun. Hæstv. ráðherra vék að því að á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefði sú sem hér stendur talað um að það hefði verið slæmt að hæstv. ráðherra hefði ekki veitt þeim umsækjanda sem kom inn á hennar borð í sinni ráðherratíð uppreist æru.

Ég vil bara leiðrétta að það var ekki svo. Mig langaði hreinlega að fá fram frá ráðherra haldbær gögn eða sannanir fyrir því að hún væri löngu byrjuð að skoða þetta mál af því að mér fannst það koma frekar seint fram í umræðunni. Væri það svo að ráðherra hefði ákveðið að víkja frá einhverju sem kallað er stjórnskipuleg hefð eða venja, þá hefði viðkomandi náttúrlega átt a.m.k. rétt á andmælarétti. Sama hvað mér kann að finnast um uppreist æru og framkvæmdina á því, þá fannst mér eðlilegt að spyrja hvort stjórnsýslureglum hefði verið fylgt eftir í þessu máli sem og öðrum. Mér fannst það alveg eðlileg spurning án þess að ég hafi verið að kalla eftir því á opnum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að kynferðisbrotamanni yrði veitt uppreist æra.

Ég var einfaldlega að spyrja hvernig þessu ferli var öllu saman fyrir komið því að ekki var upplýsingar að fá frá dómsmálaráðuneytinu, sem engar upplýsingar vildi afhenda um þessi mál, um framkvæmd þeirra. gagnvart meðmælendum t.d.

Okkur kann kannski að greina á um þessa söguskoðun, það er greinilegt. En hvað varðar það að brotaþolar hafi ekki fengið aðgang að þessum upplýsingum þá verð ég nú að segja að opin bréf, fjöldi greinaskrifa, endurtekin viðtöl og þar með talin líka heimsókn Bergs Þórs Ingólfssonar til allsherjar- og menntamálanefndar þar sem hann fór skýrt yfir það til hvers hann vonaðist af yfirvöldum, ætti að teljast nægt tilefni fyrir hæstv. dómsmálaráðherra að afhenda þessar upplýsingar en það þurfti úrskurðarnefnd upplýsingamála til að aflétta leyndinni og það á endanum (Forseti hringir.) sprengdi ríkisstjórnina, sama hvað hver segir um það.