149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna afnáms ákvæða um uppreist æru.

222. mál
[21:24]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Af því að menn fóru að ræða um söguna þá vék ég að þessum ágæta fundi sem ég sat hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd 19. september 2017 og rifjaði það upp. Ég man að mér fannst tónninn í þeirri fyrirspurn sem hv. þingmaður setti fram á þeim fundi vera þannig að það væri verið að gera það tortryggilegt að ekki væri búið að veita manni uppreist æru, kynferðisbrotamanni. Með leyfi virðulegs forseta, ætla ég að vitna í spurningu hv. þingmanns sem ég fletti hér upp, en hún var svona:

„Tók ráðherra afstöðu til jafnræðisreglunnar þegar hún ákvað að veita ekki uppreist æru í umræddu tilviki þrátt fyrir að lögum hafi ekki verið breytt eins og ráðherra taldi eðlilegt að myndi verða gert.

Fór fram mat innan ráðuneytisins á réttaráhrifum ákvörðunar ráðherra, þ.e. að neita að samþykkja uppreist æru og er það mat skjalfest?“

Ég var búin að útskýra að ákvæði í hegningarlögum er alveg klárt að mínu mati, klárt heimildarákvæði, en ekki skylduákvæði til að veita uppreist æru. Þá fannst mér ég greina þarna einhvers konar tón um það eða afstöðu til þess að það væri ekki eðlilegt að synja mönnum um uppreist æru sem hefðu sótt um það til ráðuneytisins.

En það er þó gott að heyra að það eru allir sammála um að það kerfi var úrelt og allt of upphafið, eins og hv. þm. Guðmundur Andri Thorsson vék að í sinni ræðu, óþarflega upphafið fyrirbæri til að veita mönnum aftur sín borgaralegu réttindi.

Þetta vildi ég bara að nefna og vildi árétta líka vegna andsvars hv. þingmanns að ég veitti bæði brotaþolum og jafnvel einhverjum aðstandendum þeirra, sem sögðust hafa umboð en kom síðan í ljós að voru ekki með umboð fyrir sína aðstandendur, til að mæta og tók á móti þeim og veitti þeim upplýsingar um alla þessa framkvæmd og þetta fyrirbæri sem uppreist æra er, sem ég gerði mér alveg grein fyrir að margir ættu í erfiðleikum með að skilja enda mjög fornt og torskilið fyrirbæri.