149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna afnáms ákvæða um uppreist æru.

222. mál
[21:38]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að nær væri að lýsa þessu lagafrumvarpi — hv. þingmaður telur að hérna hafi verið farin sú leið að finna óflekkað mannorð og þetta sé þröng nálgun. Ég myndi frekar telja að réttara sé að lýsa þessu sem hlutlausri nálgun, þetta er hlutlaus nálgun þar sem farið er í að útrýma þessu hugtaki, óflekkað mannorð, sem er ógagnsætt. Afraksturinn er þessi afurð, frumvarpið, sem er að mínu mati með gagnsærri ákvæði um veitingu þessara réttinda aftur. Ég held því að það sé nálgunin.

Hv. þingmaður þekkir það auðvitað líka að í þessu, eins og hefur verið nefnt í umræðunni, eru sérákvæði í ýmsum lögum um kennara, um heilbrigðisstarfsfólk, um leikskólakennara og allar þær stéttir sem taka sérstaklega á stöðu viðkvæmra hópa. Auðvitað ætla ég ekki að segja nefndinni fyrir verkum. Það er sjálfsagt að hún skoði þetta og kalli eftir ábendingum, en ég held að það kynni að tefja málið eða gera það óþarflega flókið að ætla að fara að bæta því við í þetta frumvarp. Ég held hins vegar að það sé alveg fullt tilefni til að nota þetta tækifæri og kalla eftir viðbrögðum frá þessum stéttum inn í umræðuna þannig að hægt sé að safna þeim saman. Það getur verið góður undirbúningur fyrir næstu skref sem gætu þá verið bandormur, aftur, ef mönnum hugnast það, eða þá þannig að hvert ráðuneyti hafi það hjá sér og hafi þá einhvern efnivið til þess að vinna úr.

Þetta er bara mjög spennandi verkefni, eins og vinsælt er að segja, og miklar áskoranir í því fólgnar. Ég hlakka til umræðunnar enn og aftur. Og enn og aftur vil ég ítreka og þakka fyrir umræðu um þetta tímamótamál að mínu mati við 1. umr.