149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

skógar og skógrækt.

231. mál
[22:00]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Auðvitað þekki ég þetta svar, oft heyrt það áður, stutta leiðin o.s.frv. En það er ekkert löng leið að kæra til lögreglu. Lögreglan tekur skýrslu og síðan býður lögreglustjóri viðkomandi að ljúka málinu með sektargreiðslu. Þetta getur tekið nokkra daga. Þetta er ekki flókið. Ef hann neitar er ákært á grundvelli gagna. Það getur tekið einhvern tíma auðvitað, en þá fær hann réttláta málsmeðferð fyrir dómi. Hvernig er þessi málsmeðferð hér? Hvernig er hún ef maðurinn er ósáttur? Hvaða leið fer hann? Hann kærir auðvitað til æðra stjórnvalds sem er hugsanlega ráðherra þannig að það tekur líka tíma að fá úrlausn þar.

Ég ítreka það sem ég sagði. Ég hef stórar efasemdir um þennan kæk sem virðist vera í lagasetningarvaldi að færa hinum og þessum stjórnvöldum sí og æ sektarvald.

Ég vil bæta við fyrri spurningu athugasemd um þvingunarúrræði 22. gr., þar sem Skógræktinni er einnig gefið vald til að þvinga fram framkvæmd ráðstöfunar með ákvörðun dagsekta. Þetta er svipað ákvæði. Ég vil bara spyrja: Er þetta nauðsynlegt og í hvaða tilvikum? Og einnig ákvæði í 21. gr. þar sem Skógræktin hefur heimild til að taka gjald fyrir fellingarleyfi, þ.e. ef einhver maður ætlar að fella skóg þá sækir hann um fellingarleyfi til Skógræktarinnar og þá tekur Skógræktin gjald fyrir að gefa leyfið. Ég spyr: Er þetta nauðsynlegt? Hvert erum við komin? Er þetta ekki svolítið vel í lagt, hæstv. ráðherra?