149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

skógar og skógrækt.

231. mál
[22:03]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég gat ekki látið hjá líða að koma upp og fagna því að þetta frumvarp sé komið fram. Ég var svo heppin að alast upp við skógrækt og gróðursetningu. Amma mín, Magdalena Margrét Sigurðardóttir, var formaður Skógræktarfélags Ísfirðinga um áratugaskeið og var dugleg að draga okkur barnabörnin með í alls kyns verkefni. Búum við öll að því enn í dag að hafa á þann hátt lært að njóta þess umhverfis sem skógar hafa upp á að bjóða. Það var auðvitað löngu tímabært, eins og hæstv. ráðherra kom inn á, að ný lög kæmu fram. Eins og fram kemur í greinargerð frumvarpsins eru núgildandi lög um skógrækt yfir 60 ára gömul og um margt úrelt þó svo að markmið þeirra séu auðvitað enn góð og gild.

Það hefur sem betur fer margt breyst í skógrækt á Íslandi og hefur þekking og geta til að rækta nýjan skóg vaxið. Þegar skógrækt á Íslandi hófst var hreinlega að því hent grín og jafnvel fullyrt að á Íslandi yxu ekki skógar. Það hefur sem betur fer verið afsannað og er skógrækt í dag stunduð hér á landi með fjölbreyttum markmiðum, eða eins og kemur fram í greinargerð frumvarpsins, með leyfi forseta:

„… til atvinnusköpunar, byggðaþróunar, útivistar, lýðheilsu, viðhalds og eflingar umhverfisgæða, endurheimtar vistkerfa og bindingar gróðurhúsalofttegunda, sem þáttur í aðgerðum gegn loftslagsbreytingum.“

Mig langar að koma aðeins inn á þetta síðasta, þ.e. loftslagsbreytingarnar, en skógræktin er mjög mikilvægur hluti af framlagi Íslands til loftslagsmála. Þannig kom nýverið fram í Bændablaðinu grein sem var skrifuð af dr. Brynhildi Bjarnadóttur, lektor við Háskólann á Akureyri, dr. Aðalsteini Sigurgeirssyni, fagmálastjóra Skógræktarinnar, og Pétri Halldórssyni, kynningarstjóra Skógræktarinnar, þar sem kom fram að gögn úr verkefninu Íslensk skógarúttekt sýni að ræktaðir skógar á Íslandi binda árlega að meðaltali nálægt tíu tonnum af koltvísýringi á hverjum hektara í trjám og jarðvegi.

Skógur sem er ræktaður á snauðu landi, rofnu landi, framræstu landi eða auðnum stöðvar auk þess þá losun sem stafaði af landinu, áður en skógræktin hófst og eykur skógur þannig almenna grósku og eflir lífríki langt út fyrir skóginn. Þetta sýnir samkvæmt greininni svo ekki verður um villst mikilvægi skóga á Íslandi, bæði fyrir Íslendinga sem notendur skóga og fyrir loftslag. Í greininni kemur margt fleira fróðlegt fram og mæli ég eindregið með lestri hennar.

Til að mynda kemur fram að mælingar sýna að nytjaskógur hefur meiri jákvæð loftslagsáhrif en friðaður skógur. Í sjálfbærum nytjaskógi er stöðug binding og loftslagsáhrif tvíþætt, þ.e. kolefni binst í nýjum viði sem myndast og ef nytjaviðurinn er nýttur í stað ósjálfbærra jarðefna, úr olíu og kolum, þá dregur úr nettólosun. Það síðarnefnda hlýtur að vera augljós kostur fyrir Íslendinga en við þurfum eins og staðan er í dag að flytja inn stærstan hluta þess timburs sem við notum og hlýtur því að vera eftirsóknarvert að auka vöxt íslenskra nytjaskóga.

Það er reyndar hrein unun að fylgjast með því hvernig skógarafurðir um land allt eru notaðar á fjölbreyttan og skemmtilegan hátt, t.d. sem byggingarefni. Þegar rætt er um nytjaskóga er eðlilegt í því samhengi að koma inn á mikilvægi skógarbænda. Langar mig að velta því upp og hvetja hv. þingmenn sem sitja í umhverfis- og samgöngunefnd til að skoða hvort ekki væri ástæða til að koma inn í lögin einhvers konar skilgreiningu á því hvað skógarbóndi er. Skilgreiningin gæti einfaldlega verið orðuð sem svo að skógarbóndi sé bóndi sem á skóg, óháð því hvernig hann var fjármagnaður, þ.e. skógurinn en ekki bóndinn. Í lögunum mætti svo einnig skilgreina að allir skógarbændur hefðu sömu réttindi gagnvart skattyfirvöldum, en í dag fá skógarbændur sem fjármagna sig sjálfir ekki virðisaukaskatt endurgreiddan.

Frú forseti. Mig langar að koma inn á þá staðreynd að skógar eru ekki aðeins gagnlegir vegna loftslagsáhrifa eða timburafurða. Í skógum er svo margt fleira sem vex og dafnar heldur en bara tré, sem hefur einmitt jákvæð áhrif inn í íslenskt samfélag, og má þar m.a. nefna ber og matsveppi. Fátt er betra en sósa eða súpa með íslenskum villisveppum eða villisveppa-risotto, þar sem íslenskt hráefni og ítölsk matarhefð vinna snilldarlega saman. Eins og heyra má var ég líka svo heppin að eiga frábæra foreldra sem kenndu mér að nýta íslenska matsveppi.

Það má ekki gleyma því heldur hversu magnaðir skógar eru til útivistar. Skemmtilegt dæmi um slíkt má finna fyrir norðan þar sem Kjarnaskógur er orðin eitt vinsælasta útivistarsvæði Akureyringa, um 800 hektarar að stærð. Við upphaf skógræktar þar í kringum 1950 var landið skóglaust með öllu, nokkuð sem við sem yngri erum að árum eigum svolítið erfitt með að ímynda okkur. Frá þeim tíma hefur verið plantað 1,5 milljónum plantna og er svæðið, sem eru í eigu Akureyrarbæjar, í umsjá Skógræktarfélags Eyfirðinga.

Í Kjarnaskógi eru upplýstar trimmbrautir og göngustígar en það sem mér finnst líklega skemmtilegasta framtakið er að um leið og snjóar er troðinn braut og sporuð fyrir gönguskíðafólk. Þá er brautin upplýst sem gerir íbúum og gestum kleift að nýta sér svæðið jafnvel yfir háveturinn þegar myrkrið er hvað mest yfirþyrmandi. Þó að ég sé líklega farin að hljóma örlítið eins og sölumaður fyrir Kjarnaskóg, get ég ekki látið hjá líða að nefna allt hitt sem þar er að finna, til að mynda er þar leiksvæði fyrir börn, blakvöllur, grillaðstaða og síðast en ekki síst fyrsta sérhannaða fjallahjólabraut landsins. Þannig má segja að í Kjarnaskógi hafi heppnast að búa til stað þar sem allir geta komið saman, sem allir geta nýtt sér, hvert svo sem áhugamál þeirra er.

Frú forseti. Það er fjölmargt annað sem ég gæti nefnt og komið inn á varðandi þetta frumvarp. Ég ætla þó að láta staðar numið að svo stöddu og ítreka fögnuð yfir því að frumvarpið sé komið fram. Ég vona að nú fari betur en síðast og málið verði klárað á þessu þingi.