149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

skógar og skógrækt.

231. mál
[22:28]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður kemur inn á mjög skemmtileg atriði sem sjálfsagt er að reyna að svara eftir bestu getu. Ég held að mesta ógn sem umhverfið, náttúran, hefur staðið fyrir sé einmitt bölvun almennings, bölvun almenningsins þar sem enginn skýr eignarréttur er um hver beri ábyrgð t.d. á landi. Ég held að það sé sú mesta umhverfisógn sem við höfum staðið frammi fyrir. Nægir til að mynda að líta á hvernig við fórum með fiskveiðiauðlindina fram að setningu kvótakerfisins, eða takmörkunina í sókn til að vernda umhverfið, þar var svokallaður sóknarréttur eða ólympískar veiðar þar sem enginn skilgreindur nýtingarréttur var til staðar. Ég held að það hafi ekki verið gott fyrir umhverfið eða lífríkið í hafinu, enda var það meginástæðan fyrir setningu kvótakerfisins að ná tökum á hinni umhverfislegu ógn sem auðlindin stóð frammi fyrir á þeim tíma. Það er þessi bölvun almennings, að menn virði ekki annarra manna eigur eða sýni skeytingarleysi, sem er að mínu mati svo slæmt. Það er það, frú forseti, sem ég var að vísa til í ræðu minni og vona að hv. þingmaður sé einhverju nær um þetta.

Ég lít ekki svo á að verkefnið sem við stöndum frammi fyrir til að mynda í loftslagsmálum, verkefnin eru þar gríðarleg og ég er alveg hjartanlega sammála þingmanni í því, sé að hefja sig upp yfir eignarréttinn. Þvert á móti getur það skipt verulega miklu máli að finna þetta jafnvægi á milli hvenær tilhlýðilegt er að takmarka eignarrétt manna og svo jafnvægið um eignarrétt manna á sinni eigin eign, eigin landi eða umhverfi. Það er þetta samspil sem ég tel vera mikilvægt. Sammála hv. þingmanni um að verkefnið er stórt og mikilvægt.