149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

skógar og skógrækt.

231. mál
[22:32]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður kemur einmitt inn á eiginlega mestu almannagæði sem fyrir er að dreifa. Það má ekki misskilja mig og ég segi: Ég er ekki á móti almenningi sem slíkum, en það hefur falist í almenningi út af skorti á tilteknum eignarrétti sú hætta að menn fari illa með þau almannagæði. Eru ekki einmitt loftslagsmálin mjög skýrt dæmi um það, þar sem andrúmsloftið sem við öndum að okkur er í almannaeigu, ef svo má segja, það er almannagæði? Þess vegna sé það þannig að menn skeyti ekkert um það þótt þeir mengi með útblæstri gróðurhúsalofttegunda?

Þetta er einmitt atriði og leið til þess að ríki heims eru að reyna að komast að niðurstöðu um að skipta þessum gæðum, þ.e. að kvótasetja útblástur gróðurhúsalofttegunda og slíku sem er einmitt sú leið sem menn hafa farið við útdeilingu almannagæða eða koma skikki á almannagæði, sem felst í reglum eignarréttarins og hvaða þýðingu hann hefur.

Ég ætla ekki að vera í frekari deilu við v. þingmann. Ég held við séum sammála um markmiðið. Við erum mögulega ósammála um einhverjar leiðir. Ég held að rangt sé að horfa á þetta svo þröngt að kenna eignarréttinum eingöngu um. Það er þá miklu frekar að horfa á þá hættu sem leiðir af því að menn fara illa með almannagæði af því að ekki er skýr eignarréttur um þau.

Ég ætla að leyfa mér í lok andsvarsins að benda á og skoðun mín er sú að Kárahnjúkavirkjun hefði ekki verið reist ef ríkisvaldið í sínu ógnarveldi hefði ekki í krafti heimilda sinna tekið þar lönd eignarnámi. Sú virkjun hefði þá aldrei verið reist.