149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

skógar og skógrækt.

231. mál
[22:35]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Frú forseti. Ég veit ég ekki hvar ég á að lauma mér inn í orðræðuna, en gott og vel. Mikilvægi hraustlegs og vel dreifðs skóglendis er hafið yfir allan vafa. Það kom fram í máli hæstv. ráðherra, og fleiri reyndar. Nefndur var skógur sem auðlind, jarðvegsvernd og viðhald líffræðilegrar fjölbreytni, útivist og mannrækt og svo náttúrlega kolefnisbindingin og markmið okkar, bæði Parísarsamkomulagið og hið metnaðarfulla markmið að hafa Ísland kolefnishlutlaust 2040.

En það hefur enginn nefnt eitt sem skiptir gríðarlega miklu máli og það er það sem við getum kallað staðbundið veðurfar og skógar stýra öðru fremur. Okkur veitir ekki af því á Íslandi þar sem veðurfar er eins og það er. Við getum tekið borgina sjálfa sem dæmi um slíkt svæði eða vel skógi vaxin svæði víða um land og það hvernig skógar stýra og bæta veðurfar að okkar mati.

En þessi örfáu prósent lands, utan jökla og stöðuvatna og straumvatna — þetta eru ekki nema örfá prósent — eru ákaflega dýrmæt. Hér er verið að ræða bæði birkiskóga og skóga með erlendum trjám. Það er mjög mikilvægt að þá sé eitt atriði sem þar komi mjög sterkt inn í og það er bindigeta ólíkra trjátegunda, annars vegar tiltölulega hraðvaxta birki sem er grannt og smálegt og svo erlendu trjánna sem eru sum hraðvaxta eins og ösp en önnur hægvaxta eins og kannski fura. En þær tegundir binda mun meira kolefni heldur en birki. Við þurfum að hafa það með þegar við ræðum hlutföll og stuðning og annað slíkt vegna þess að það skiptir verulegu máli.

Ég vil gjarnan benda á margþætt hlutverk allra sem að þessu koma. Það er almenningur og almenn félagasamtök. Það eru fyrirtæki. Þau eru þegar farin bæði að styðja skógrækt og t.d. endurheimt votlendis. Það er mjög mikilvægt að hugað sé að því hvernig ívilnun fyrirtæki geta fengið. Þótt það eigi ekki heima í þessum lögum sérstaklega er rétt að benda á það, einfaldlega vegna þess að það mun ýta undir bæði aukna skógrækt og aukna endurheimt votlendis. Það eru líka sveitarfélögin. Umhverfisáætlanir sveitarfélaga eru smám saman að verða til. Ég nefni það nýjasta sem ég þekki til, Garð og Sandgerði, sem eru búin að búa sér til mjög metnaðarfulla umhverfisáætlun og þar inn í kemur skógrækt á því bera svæði sem Miðnesheiðin er og umhverfi bæði Sandgerðis og Garðs. Þetta er mjög mikilvægt í því sambandi.

Síðan komum við að bændum, skógarbændum, og nytjaskógahugtakinu og sjálfbærninni sem því fylgir. Þá má nefna að til eru gamlar tölur um stærð þess fullvaxta skóglendis, 10–15 m trjáa, sem þarf til þess að Íslendingar séu nánast sjálfum sér nægir hvað timbur snertir. Það eru ekki nema 600 km². Það eru sem sagt nokkrir bútar sem samanlagt, ef þeir færðust saman, væru 20 km á annan kantinn og 30 km og hinn.

Ef við hugsum okkur þetta landsvæði á Íslandi þá sjáum við að það er ekkert svo fjarri lagi að slíkt gæti náðst á einhverjum áratugum, 5, 20, 50 eða 100 árum, allt eftir því hvaða trjátegundir er um að ræða.

Það er mjög mikilvægt að frekari hvatning og samvinna með skýru markmiði um sjálfbært timburland hér á eyjunni fylgi hugsun þessara laga í það minnsta.

Frú forseti. Það er fullkomlega nauðsynlegt að endurskoða lögin sem voru sett á sínum tíma. Það er búið að reyna nokkrum sinnum, leggja þau fram endurhefluð og endursmíðuð hverju sinni, og nú er komið að því að sú útgáfa sem við stöndum frammi fyrir er greinilega orðin nægjanlega góð að mati þeirra sem hafa tekið til máls og loksins hægt að fara að koma þessu í einfalt og fullbúið lagaform.

Ég styð framlagningu frumvarpsins sem gengur nú til hv. nefndar. Þar á ég von á snöfurmannlegri afgreiðslu og svo aftur í þinginu sjálfu þegar því er lokið.

Mig langar alveg í blálokin að skjóta inn fáeinum orðum um eignarrétt. Það fer náttúrlega mjög svo eftir því hvað menn eiga. Eignarréttur er fyrirskrifaður í stjórnarskránni og við viljum auðvitað að umgangast hann af virðingu en ýmsar takmarkanir snúa fyrst og fremst að því hvað menn eiga. Menn geta átt olíulindir. Er þá eignarrétturinn heilagur? Menn geta átt illa farið land sem þeir ekki vilja græða upp. Er eignarrétturinn þá heilagur? Þeir geta átt skóg sem bindur kolefni og vilja skerða hann að einhverju leyti. Er það líka heilagur eignarréttur sem þar gildir? Hvað um straumvötn eða vatnsból? Það eru lög sem segja að við eigum öll heimtingu á ferskvatni og þar er eignarrétturinn takmarkaður. Hægt er að benda á ótal slík atriði. Heilan fjörð geta menn átt. Þegar kemur að eignarréttinum og svo aftur almannarétti er málið ekki eins einfalt og hv. þm. Teitur Björn Einarsson lét í veðri vaka á undan mér.

Ég læt þessu að öðru leyti lokið.