149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

skógar og skógrækt.

231. mál
[22:41]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framlagningu frumvarpsins. Ég hef heyrt þingmenn dásama frumvarpið og ég efast ekki um mikilvægi þess að endurskoða lög um skógrækt. Ég held að við öll í salnum hljótum að vera sammála um mikilvægi skógræktar og reyndar líka landgræðslu, ef út í það er farið, sérstaklega á tímum sem þessum þegar ljóst er að við þurfum að bregðast mjög hratt við loftslagsógninni.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, fyrst hann kom inn á að líka skiptir máli hverju verið er að planta út frá því hvað það binst af kolefnum: Er hv. þingmaður á því að tekið sé nægjanlega á því í frumvarpinu eða þarf að bæta við hvað það varðar?

Svo get ég ekki látið hjá líða að spyrja hv. þingmann, sem ég veit að hefur lengi haft mikinn áhuga á þeim málum, hvort ástæða kunni að vera til að horfa á sameiningu þeirra stofnana sem við ræðum annars vegar hér, þ.e. Skógræktina, og hins vegar í næsta máli sem rætt verður, þ.e. Landgræðsluna. Í mínum huga eru þetta stofnanir sem hafa að einhverju leyti keimlík markmið. Ég hef velt því fyrir mér hvort fólginn væri í því bæði fjárhagslegur ávinningur og líka einhvers konar faglegur ávinningur ef þær væri saman í einni stofnun.