149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

skógar og skógrækt.

231. mál
[22:48]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að lýsa ánægju minni með að heyra að frumvarpið fellur í góðan jarðveg hér á Alþingi enda hefur mikil vinna í samráði við marga aðila í langan tíma átt sér stað.

Mig langar að leggja áherslu á eitt atriði í ljósi þeirrar umræðu sem hér hefur átt sér stað og það lýtur að fjölbreytni skóga og ekki síst mikilvægi þess að við skógrækt sé hugað að líffræðilegri fjölbreytni. Því vil ég ítreka að við getum ekki eingöngu litið til þess hvað einstakar tegundir binda mikið heldur þurfum við að hafa í huga heildarsamhengið um hvaða öðrum markmiðum við erum að ná eins og varðandi líffræðilega fjölbreytni og endurheimt landgæða.

Hér var komið inn á hvort skilgreina þyrfti sérstaklega skógarbændur. Ég ætla kannski ekki að úttala mig um það en vil spyrja þeirrar spurningar á móti hvort skilgreiningar séu í öðrum lögum á öðrum bændum eins og svínabændum, kúabændum o.s.frv. og hvaða tilgangi það myndi í rauninni þjóna að setja skilgreiningu sem þessa inn, en það er eitthvað sem hv. umhverfis- og samgöngunefnd mun án efa skoða.

Varðandi endurgreiðslur á virðisaukaskatti þá vísast til þess að það er auðvitað skattamál sem væri hægt að skoða annars staðar.

Ég vil líka nefna varðandi þau atriði sem hv. þm. Teitur Björn Einarsson kom inn á að með 18. gr. er verið að reyna að tryggja sjálfbæra skógastjórnun, ef við getum komist þannig að orði, þ.e. það þarf að huga að því hve mikið kolefni er bundið í skógum landsins. Það þarf að halda bókhald í kringum það og þá í tengslum við skógaskrána. Þess vegna er mikilvægt að halda utan um það hversu mikið er fellt af skógi.

Aðeins varðandi sameiningu stofnana. Ég tel mikilvægast núna að klára það verkefni að uppfæra lögin hvað varðar skóga og skógrækt og einnig varðandi landgræðslu. Það er mikilvægasta verkefnið núna. Það eru jú eitthvað mismunandi skoðanir á því hvað ætti að sameina ef til sameiningar kæmi, hvort það væri auðlindastofnun sem tæki til skógræktar, landgræðslu og náttúruverndar eða hvort skógrækt og landgræðsla ættu t.d. að vera saman. Hvað sem kann að gerast í þeim málum í framtíðinni er mikilvægt að við uppfærum þessa tvo lagabálka þannig að lögin séu komin í meiri takt við nútímann og síðan má taka hina umræðuna seinna.

Ég vil þakka hv. þingmönnum kærlega fyrir málefnalega umræðu og óska hv. umhverfis- og samgöngunefnd velgengni í umfjöllun sinni um málið og leyfi mér að vonast til þess að frumvarpið verði afgreitt frá Alþingi fyrir áramót.