149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

landgræðsla.

232. mál
[23:20]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstvirtur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að taka þátt í umræðunni. Ég held að við deilum að mestu leyti skoðunum þegar kemur að þessum málum. Ég tel gríðarlega mikilvægt að við nýtum öll þau tækifæri sem við getum til að stunda meiri landgræðslu. Það er grunnurinn að því að bæta landgæði. Eitt af því sem ég hef lagt áherslu á við stofnanir ráðuneytisins, þ.e. Landgræðsluna og Skógræktina, sem vinna núna að skiptingu fjármagns fyrir næsta ár, er að stöðvun landeyðingar sé eitt af meginverkefnunum í því auk þess að endurheimta fyrri landgæði, stunda meiri skógrækt og þar fram eftir götunum.

Ég ætla rétt að koma inn á fjármagnið. Áætlað er að setja um 4 milljarða á næstu fimm árum í kolefnisbindingu en hún tekur til fleiri þátta en bara landgræðslu, þ.e. líka endurheimt votlendis og skógræktar. Ég sé því fram á mun bjartari tíma þegar kemur að fjármagni en við höfum séð áður og vænti þess að við getum nýtt það á sem skynsamlegastan hátt en jafnframt með fjölbreytt markmið að leiðarljósi. Ég kom aðeins inn á það í fyrri umræðu um skóga og skógrækt að við þurfum að hugsa til þess að huga að líffræðilegri fjölbreytni og huga að því að stöðva landeyðingu og rof.

Varðandi 12. gr. tekur hún, og lögin í heild sinni, á öðrum þáttum sjálfbærrar nýtingar en aðeins þeim sem snýr að landbúnaði eða fyrst og fremst að sauðfjárbeit og sauðfjárrækt. Þetta hefur einnig með aðra nýtingu landsins að gera, eins og hv. þingmaður nefndi áðan. Það kann að fara eftir öðrum lögum. Ef um er að ræða beit og landbótaáætlunum er ekki sinnt fer það eftir lögum um afrétt og fjallskil. Ef um er að ræða rask t.d. vegna hjóla eða gangandi fólks eða umferðar fer það eftir náttúruverndarlögum. Ef um er að ræða annars konar nýtingu eru ekki úrræði í öðrum lögum og er fjallað um að það séu sérstök þvingunarúrræði samkvæmt þessum lögum.

Ég vil að lokum þakka þingmönnum fyrir móttökurnar hvað þetta frumvarp varðar og vonast til þess að við getum afgreitt það fyrir áramót. Það væri mjög æskilegt og gott, enda tími til kominn að uppfæra löggjöfina sem er orðin um 50 ára gömul.

Ég þakka kærlega fyrir umræðurnar í kvöld.