149. löggjafarþing — 24. fundur,  24. okt. 2018.

störf þingsins.

[13:31]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Mig langar á kvennafrídegi að fara inn á verklagsreglur sem verið er að semja innan Pírataflokksins sem tengjast því að gera vinnustaðinn þannig að öllum finnist þeir velkomnir, að þeir séu ekki óvelkomnir á vinnustaðnum vegna eineltis, áreitis, þar á meðal kynferðislegs áreitis, kynbundinnar áreitni og ofbeldis. Þetta sprettur allt upp úr #metoo, að flokkar fara að semja sér verklagsreglur. Nú veit ég að Vinstri græn komu nýlega, í síðustu viku held ég, fram með sín drög um verklagsreglur, um bann við kynferðislegri áreitni og annarri ólögmætri hegðun.

Við Píratar eru búnir að vera vinna þetta í skjali frá því í janúar. Skjalinu var ég að deila á Pírataspjallinu á Facebook fyrir þá sem hafa áhuga á að kíkja á það. Það er opið. Það geta allir sett inn athugasemdir. Við erum búnir að leita til ýmissa í samfélaginu. Ég fór sjálfur á námskeið hjá Kjartani Bjarna Björgvinssyni dómara sem haldið hefur námskeið í Háskóla Íslands fjórum sinnum. Námskeiðið heitir #metoo og lögin. Það er svo margt sem maður hefur lært um hvað maður þarf að gera ef maður ætlar að skapa umhverfi þangað sem fólki finnst ekki fjandsamlegt að koma á grundvelli kyns eða kynhneigðar. Ef við gerum það ekki erum við ekki að skapa jafnræði á grundvelli stjórnmálanna. Stjórnmálin eiga sér að svo miklu leyti stað í stjórnmálaflokkunum og ég tala nú ekki um að ef maður ætlar að komast til áhrifa þarf að gera það í gegnum flokkana.

Leiðin sem við fórum við að gera verklagsreglurnar — ég gerði þetta í þinginu þegar við vorum að vinna þetta í forsætisnefnd og kallaði m.a. eftir að gerð yrði löggilt þýðing á verklagsreglum Sameinuðu þjóðanna. Svo höfum við tekið það og unnið skjalið áfram og unnið við að heimfæra það upp á íslenskan raunveruleika, heimfæra það upp á stjórnmálaflokkinn en ekki þjóðréttarleg samtök eins og Sameinuðu þjóðirnar eru. Við erum alveg á lokametrunum og getum líklega klárað fyrstu drög sem við munum síðan deila og leyfa fólki að hafa aðgang að, þ.e. kalla sérstaklega eftir umsögnum um nú næsta mánudag. Allir sem hafa áhuga geta farið inn á Pírataspjallið á Facebook, fundið skjalið (Forseti hringir.) og komið með athugasemdir sem við munum að sjálfsögðu taka tillit til.