149. löggjafarþing — 24. fundur,  24. okt. 2018.

störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Herra forseti. Til hamingju með daginn. Í nefndarstörfum nýlega var stjórnarfrumvarp kynnt fyrir nefndarmönnum. Þar kom fram að frumvarpið var í raun ekki tilbúið og búist var við því að nefndin myndi klára vinnslu málsins.

Ástæðan fyrir því að Alþingi var boðið upp á ófullgert frumvarp var sögð sú að kústurinn væri hátt á lofti að skila frumvörpum inn til þingsins á réttum tíma, þó að það væri áður en þau væru tilbúin. Ég forðast að nefna hvaða frumvarp þetta er, hvaða ráðuneyti þetta er eða nefna annað sem myndi auðkenna hvaðan útskýringin kom því að ég kann að meta heiðarleikann sem nefndin fékk um stöðu frumvarpsins. Nákvæmlega þannig á stjórnsýslan einmitt að virka, fullkominn heiðarleiki embættismanna án þess að detta í vörn fyrir sjálfa sig eða ráðherra.

Ég gæti skammast út í léleg vinnubrögð eða annað á þeim nótum en mig langar frekar að einblína á heiðarleikann í þessu máli. Hann hjálpar nefnilega til að laga það sem vantar upp á og í þessu máli er það svo sem ekkert rosalega mikið. Ef svona heiðarleiki væri algengari held ég að margt færi betur hér á Alþingi. Þess vegna langar mig ekki til að skammast út í þetta mál heldur hrósa. Ég vil fleiri svona mál.

Jafnvel þótt þau séu ekki fullunnin vil ég fá að heyra það. Það er miklu betra en að reynt sé að fela mögulega galla. Það er miklu betra en að þurfa alltaf að laga allt eftir á.

Þótt fyrstu viðbrögð manns við svona skilaboðum séu forundran vekur svona heiðarleiki með manni traust, traust á að þó að vinnubrögðin séu ámælisverð sé a.m.k. ekki verið að fela neitt.

Það er kannski merkilegt út af fyrir sig að þurfa að þakka fyrir heiðarleika. Mig langaði bara sérstaklega að þakka fyrir þennan heiðarleika. Það er nefnilega erfitt að viðurkenna það sem er viljandi illa gert. Ég vona að ekki þurfi að viðurkenna svona vinnubrögð aftur en ég vonast til þess að ef það þarf verði það gert. Nú hef ég alla vega ástæðu til að vonast eftir slíkum heiðarleika.

Mig langar bara að beina þökkum til þeirra sem kynntu frumvarpið. Takk kærlega fyrir.