149. löggjafarþing — 24. fundur,  24. okt. 2018.

störf þingsins.

[13:43]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Ég vil ræða fyrirmyndir. Í gær var ein af fyrirmyndunum mínum, sterk og hugrökk kona, við það að gefast upp á jafnréttisbaráttunni. Hún vissi samt að það væri tímabundið því að í dag er baráttudagur aftur. Það er kvennaverkfall.

Þessi vinkona mín tók, eins og svo margar aðrar, þátt í „Beauty tips“-byltingunni 2015. Svo tók hún þátt í #höfumhátt árið 2017 og #metoo. Í öllum þessum byltingum hafa konur opnað sig um sín viðkvæmustu mál, staðið berskjaldaðar og sýnt ótrúlegan kjark.

Þetta hafa þær gert aftur og aftur og aftur. En um leið og þær misstíga sig, eins og t.d. að gerast orðljótar í garð þeirra sem verja kvalara þeirra, geta þær lent í hakkavél samfélagsumræðunnar. Um það höfum við séð skýrt dæmi á síðustu dögum. Er nema von að hver baráttukonan á fætur annarri gefist upp á baráttunni?

Viðfangsefni stjórnmálanna eru oft stór og flókin en þau eru okkar að leysa. Nýlega ræddum við samgönguáætlun. Þar ætlum við að verja 604 milljörðum til að tryggja öryggi á götum úti næstu 15 árin. Með heildarendurskoðun umferðarlaga sagði ráðherra eitt af markmiðunum vera að útrýma banaslysum. Og til stendur að verja 7 milljörðum í aðgerðir í loftslagsmálum næstu fimm árin til að tryggja öruggt umhverfi fyrir komandi kynslóðir. Mikilvæg verkefni mega kosta pening og þau mega vera flókin.

Við skulum nýta kvennaverkfallið til að líta í eigin barm og spyrja okkur hvort hér á þingi hafi verið brugðist nógu vel við þessu síendurtekna ákalli kvenna. Höfum við sem samfélag horfst í augu við meinin og gripið til aðgerða? Ég er hræddur um að svarið sé nei. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Eftir síðustu kosningar erum við of margir, karlarnir á þingi. Til að bæta upp fyrir það getum við tekið okkur þessar konur til fyrirmyndar. Við getum sýnt kjark og breytt samfélaginu.