149. löggjafarþing — 24. fundur,  24. okt. 2018.

störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Kona, þú ert móðir jörð sem börn jarðar hafa sogið úr allan sinn lífskraft svo að þú átt ekkert eftir að gefa nema blítt klapp á kinn. — Þannig hefur mér stundum liðið og eflaust mörgum öðrum konum í gegnum tíðina sem hafa verið í hlutverki alltumlykjandi móður, eiginkonu, í umönnunar- og þjónustustörfum, úti á vinnumarkaði, í félagsstörfum, í stjórnmálum og haldið í alla þræði svo að allt geti gengið sem áfallalausast fyrir sig.

Í dag á kvennafrídaginn sýna konur samtakamátt og ganga út af vinnustöðum sínum fyrr en ella og láta rödd sína heyrast, mótmæla kynbundnu ofbeldi, kynferðislegu ofbeldi, áreiti á vinnustöðum, kynbundnum launamun, lágum launum umönnunarstétta, mismunun á vinnumarkaði, ófjölskylduvænu vinnuumhverfi og mótmæla líka kúgun og hernaði gegn fátækum konum og fjölskyldum þeirra í stríðshrjáðum heimi.

Konur á Íslandi hafa verið í forystu á síðustu áratugum í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna og hefur sú barátta skilað miklum árangri. En betur má ef duga skal. Karlar og konur þurfa saman að breyta samfélaginu þannig að bæði kynin geti notið sín á jafnréttisgrundvelli.

Breytum ekki konum, breytum samfélaginu.