149. löggjafarþing — 24. fundur,  24. okt. 2018.

störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Alþingi er ekki venjulegur vinnustaður. Alþingi er löggjafarþing. Hér eiga kjörnir fulltrúar að endurspegla þverskurð þjóðarinnar. Þrátt fyrir það er ég ánægð með að þinghaldi verði hætt í dag þegar konur um allt land ganga út af vinnustöðum sínum kl. 14.55 til að taka sér kvennafrí til að sýna fram á þá dapurlegu staðreynd að meðalatvinnutekjur kvenna eru 26% lægri en meðalatvinnutekjur karla. Með því að hætta þinghaldi í dag sýnum við fram á að Alþingi Íslendinga starfar ekki án kvenna.

Þrátt fyrir það eru núna árið 2018 einungis 38% íslenskra þingmanna konur og fækkaði um tæp 10% í síðustu kosningum, frá þingkosningunum 2016 þegar flestar konur náðu kjöri í alþingiskosningum nokkru sinni. Það bakslag sem varð í fjölda þingkvenna fyrir ári varð okkur femínistum áfall, en sorgleg áminning um að baráttan fyrir jöfnum rétti kvenna og karla stendur stöðugt yfir.

Að vera þingmaður og þingkona eru forréttindi. Þrátt fyrir það hefur kynjamisrétti, kynferðisleg áreitni og kynbundið ofbeldi fengið að þrífast á vettvangi stjórnmálanna líkt og á öðrum sviðum samfélagsins. Það sýndi #metoo-byltingin okkur.

Samkvæmt niðurstöðum glænýrrar könnunar Evrópuráðsþingsins er kynjamisrétti, kynferðisleg áreitni og kynferðislegt ofbeldi landlægt í evrópskum þjóðþingum gagnvart þingkonum og starfskonum þjóðþinga. 25% þingkvenna í rannsókninni greindu frá því að þær hefðu orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. 47% þingkvenna höfðu sætt hótunum um líflát, nauðgun eða barsmíðar og 68% þeirra kváðust hafa sætt kynferðislegum athugasemdum tengdum útliti sínu og kyni.

Já, þó að þjóðþing séu engir venjulegir vinnustaðir þrífst kvenfyrirlitning og kynbundið ofbeldi í íslenskum stjórnmálum líkt og reynslusögur íslenskra kvenna, sem hafa viljað hasla sér völl á vettvangi stjórnmála, báru með sér í tengslum við #metoo-hreyfinguna sem fór af stað fyrir ári. Samt erum við íslenskar stjórnmálakonur í forréttindastöðu, með góðar tekjur, rödd sem við getum nýtt okkur og óviðjafnanlegan vettvang sem hér er til að hafa áhrif og breyta lögum og reglum samfélagsins. (Forseti hringir.)

Hvað þá með allar þær konur sem eru með brot af tekjum okkar en hafa engan aðgang að valdakerfinu eða nein áhrif, eru alls ekki öruggar á vinnustöðum sínum eða heimilum? (Forseti hringir.) Hvernig er veruleiki þessara kvenna? Eru þær í hópi þeirra sem hampa Íslandi sem jafnréttisparadís hvert sem þær koma? Nei. Þær eru ekki öruggar á heimilum sínum.

Ég legg til að við hættum svona tali (Forseti hringir.) og upprætum þann helsjúka valdakúltúr sem ójafnrétti kynjanna er. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)