149. löggjafarþing — 24. fundur,  24. okt. 2018.

störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég man eftir því á kvennafrídaginn 24. október 1975, þegar við mamma mín tókum strætó úr Breiðholtinu niður í bæ, til að taka þátt í byltingunni. Mamma, kennari til margra ára, útskýrði fyrir mér að með þessari samstöðu væru konur að leggja brautina fyrir okkur sem yngri værum. Það er rétt. Ég hef alla mína ævi notið stuðnings af baráttu mömmu minnar og hennar kynslóðar. Síðar meir kom til stuðningur af baráttu minnar kynslóðar. Núna eru það allar flottu fyrirmyndirnar úr hópi þeirra sem yngri eru. Þetta er alveg eins og það á að vera.

Mjög margt hefur áunnist í jafnréttislandinu Íslandi. Íslensk þjóð stendur þrátt fyrir allt framarlega í málefnum sem varða jafnrétti kynjanna og litið er á aðgerðir okkar og árangur sem fordæmisgefandi. Það eru fjölmörg dæmi um að við höfum reynst góð fyrirmynd og hvatt aðra til góðra verka.

Það er líka margt óunnið. Mörg mál eru óleyst eins og hér hefur komið fram, enn margir slagir sem við eigum eftir að taka og enn fleiri sem við eigum eftir að vinna. Síðast en ekki síst þurfum við að vanda okkur og huga vel að því að þeim árangri sem náðst hefur hér á landi sé náð til frambúðar.

Við berum ábyrgðina á því að halda áfram, að byggja á vinnu, fórnum og sigrum þeirra sem hófu þessa baráttu, sem sættu sig ekki við stöðuna, sem létu ekki segja sér að hún væri náttúrulögmál, sem trúðu því alltaf að hægt væri að breyta og þannig yrði samfélagið okkar betra fyrir alla.

Dætur mínar þekkja söguna af bæjarferð minni og mömmu, ömmu þeirra, fyrir 43 árum. Þær eiga svo sínar minningar frá þessum degi undanfarinn einn og hálfan áratug eða svo. Vonandi halda þær hefðinni áfram. Og vonandi verður dagskrá þessa mikla baráttudags í framtíðinni fyrst og fremst helguð gleði, þakklæti og stolti yfir því sem áunnist hefur. Vonandi verða skuggar ofbeldis, mismununar og þöggunar horfnir að fullu. Á því berum við líka ábyrgð. —Til hamingju með daginn.