149. löggjafarþing — 24. fundur,  24. okt. 2018.

störf þingsins.

[13:54]
Horfa

María Hjálmarsdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég er svo lánsöm að eiga tvö börn og það stelpu og strák sem eru tvíburar. Þegar dóttir mín var fjögurra ára byrjaði hún að kvarta yfir bókum sem við lásum á kvöldin. Þar heyrðust setningar á borð við: Af hverju eru það bara strákar sem renna sér hratt og klifra hátt? Af hverju eru stelpur aldrei sterkastar og af hverju fær Píla í Hvolpasveitinni aldrei að vinna verkefnin? Þessar spurningar komu beint frá hjartanu.

Sonur minn tók ekki eftir þessum hlutum í fyrstu en þökk sé systur hans fór hann að spá í það sama og var alveg hneykslaður. Í einlægni sinni og sakleysi sjá börnin nefnilega oft hluti í kringum sig sem við fullorðna fólkið höfum lært að leiða hjá okkur en auðvitað megum við ekki loka augunum fyrir raunveruleikanum í kringum okkur. Þó að staða kvenréttinda sé góð á Íslandi erum við hvergi nærri því að ná jafnrétti og jöfnum kjörum. Má það m.a. sjá á ósanngjarnri stöðu kvennastétta. Staðreyndin er enn sú að kvennastörf eru minna metin enn þann dag í dag. Konur vinna auk þess 70% ólaunaðra starfa og eru líklegri til að vera lengur heima en karlar í fæðingarorlofi, sem skýrist að miklu leyti af gjá milli fæðingarorlofs og leikskóla. Þó að það verkefni sé á könnu sveitarfélaganna tel ég mikilvægt að ríkið stígi með enn meiri þunga og veiti aukið fjármagn til að hægt sé að leysa málið og bæta þannig kjör kvenna og þjóðarinnar allrar.

Í lagi dagsins segir, með leyfi forseta:

„Og seinna börnin segja: Sko mömmu. Hún hreinsaði til. Já, seinna börnin segja: Þetta er einmitt sú veröld sem ég vil.“

Virðulegi þingheimur. Munum að það er í okkar höndum, valdið til að breyta þessu. Ég þori og get og vil.