149. löggjafarþing — 24. fundur,  24. okt. 2018.

störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. 24. október 1975 var dagur sem markaði nýtt upphaf. Í minni minningu er hann kannski helst minnisstæður fyrir það að níu barna móðir úr Kópavoginum tók sér ferð niður á Lækjartorg til að standa með kynsystrum sínum þar af því að hún trúði að það væri eitthvað mikið að gerast, eitthvað nýtt í gangi, réttindabaráttan væri loksins komin á skrið.

Síðan hefur okkur miðað takk bærilega. Við höfum gengið í gegnum erfiða umræðu oft á tíðum, um það hvernig konur hafa verið kúgaðar og beittar misrétti, orðið fyrir bæði kynbundnu ofbeldi og hótunum, kynferðislegu ofbeldi o.s.frv. Við höfum tekið á því m.a. hér á þinginu með því að hafa sérstaka rakarastofuráðstefnu þar sem við reyndum að fara ofan í málin og brjóta þau til mergjar og íhuga það saman hvernig við gætum komist áleiðis í þessari sömu baráttu.

En í miðri þessari umræðu um hversu langt okkur hefur skilað á þessari leið get ég ekki neitað því að undanfarnar vikur hefur mér hnykkt við vegna þess að tvær hugrakkar konur sögðu frá ofbeldi á sínum vinnustað, annars vegar persónulegu og hins vegar ofbeldi sem viðgengst í stofnanamenningunni þar sem önnur vann. Báðar þessar konur voru látnar gjalda fyrir þetta með því að missa vinnuna. Ofbeldismennirnir? Jú, annar fékk gullið handtak og fór með starfslokasamning í burtu. En konurnar tvær sitja enn eftir með það að vera án vinnu.

Það sem er dapurlegast í þessu máli er að bæði fyrirtækin sem um ræðir eru opinber fyrirtæki (Forseti hringir.), ef við getum orðað það þannig. Það hlýtur að vera áminning til okkar hér, sem höfum kannski smááhrif á það hvernig opinber fyrirtæki eru rekin, (Forseti hringir.)að við tökum mál þessara kvenna upp þannig að þær fái réttlæti.