149. löggjafarþing — 24. fundur,  24. okt. 2018.

störf þingsins.

[14:04]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Nú þegar 43 ár eru liðin frá fyrsta kvennafrídeginum lítum við yfir farinn veg og sjáum að margt hefur áunnist. Leikskólar eru almennir og fæðingarorlof er við lýði. Páll Pétursson, fyrrverandi ráðherra, barðist fyrir því ásamt fleira góðu fólki að breyta fæðingarorlofi. Árið 2000 var því réttur feðra og mæðra jafnaður og þar með réttur barna.

Þessi áfangi var og er ákaflega mikilvægur en nauðsynlegt er að gera betur.

Í landinu ríkja jafnréttislög og krafan um jöfn laun þykir sjálfsögð. Segja má að lagarammi utan um jafnréttismál sé nokkuð góður og umgjörðin töluvert traust. En það er ekki nóg að Alþingi setji lög. Sveitarfélög, einstaklingar og fyrirtæki verða að leggja sitt af mörkum.

Jafnréttismálin hafa alltaf verið okkur Framsóknarmönnum hugleikin og höfum við átt þátt í mörgum framfarasporum sem stigin hafa verið. Jafnréttisáætlanir flokksins leggja áherslu á jafna þátttöku karla og kvenna í starfi flokksins og innan flokksins er öflug kvennahreyfing sem hefur verið ötul við að hvetja konur til að stíga fram og láta til sín taka.

Rannveig Þorsteinsdóttir var kosin á þing fyrir Framsóknarflokkinn árið 1949, fyrst kvenna. Baráttumál hennar voru öðru fremur réttarstaða kvenna, skattamál og húsnæðismál. Hún var óþreytandi við að hvetja konur til starfa í félags- og þjóðmálum. Sem einstaklingur þótti hún kappsöm og skelegg og sannarlega var hún langt á undan sinni samtíð.

Hæstv. forseti. Yfirskrift dagsins er: Breytum ekki konum, breytum samfélaginu. Þökkum fyrir einstaklinga eins og Rannveigu, Bríeti, Ingibjörgu og Gústu á Refsstað og alla sem rutt hafa brautina. Þrátt fyrir allt er launamunur kynjanna staðreynd, staðreynd sem við megum ekki sætta okkur við því að öll hljótum við að bera þá ósk í brjósti að synir okkar og dætur standi jafnfætis.