149. löggjafarþing — 24. fundur,  24. okt. 2018.

staða iðnnáms.

[14:12]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir að efna til þessarar sérstöku umræðu. Framgangur verk-, iðn- og starfsnáms er eitt af mínum forgangsmálum sem menntamálaráðherra. Í stjórnarsáttmálanum hefur líklega aldrei áður verið fjallað jafn mikið um menntun. Hv. þingmaður veit mætavel að þar nefndum við sérstaklega að það eigi að efla iðn-, verk- og starfsnám í þágu fjölbreyttara og öflugra samfélags og auka tækniþekkingu sem mun gera íslenskt samfélag samkeppnishæfara á alþjóðavísu. Markmiðið er skýrt: Við ætlum að fjölga nemendum í iðn-, verk- og starfsnámi og styrkja alla umgjörð í kringum námið. Hér mun ég nefna sjö atriði sem þegar er búið að hrinda í framkvæmd.

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir 224 millj. kr. hækkun til framhaldsskólastigsins og er sérstök áhersla lögð á það í útreikningum að bæta stöðu skóla sem eru með starfs-, iðn- og verknám. Við erum þegar búin að hrinda því í framkvæmd.

Í öðru lagi hafa framlög verið tryggð til að efla kennsluinnviði fyrir verk- og starfsnám. Þannig var nýlega tekin í notkun aðstaða fyrir nemendur í málmiðngreinum og vélstjórnarnámi við Verkmenntaskóla Austurlands. Við munum einnig setja fjármuni í að bæta verknámsaðstöðu í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og Borgarholtsskóla.

Í þriðja lagi viljum við að nemendur í öllum landshlutum hafi aðgengi að fjölbreyttu starfsnámi, ekki síður en bóknámi, sem uppfyllir kröfur næsta skólastigs og atvinnulífs. Í því samhengi afnámum við efnisgjöld í framhaldsskólum sem gerðu það áður að verkum að nemendur þessara greina þurftu að greiða hærri námsgjöld. Þetta var framlag upp á 300 millj. kr.

Í fjórða lagi höfum við lagt áherslu á að einfalda og efla stjórnskipulag iðn- og starfsnáms. Starfshópur á vegum ráðuneytisins hefur það hlutverk að gera tillögur að einfaldara stjórnskipulagi starfsnáms þannig að umhverfi starfsmenntunar sé sveigjanlegra og haldið sé betur utan um það.

Í fimmta lagi vil ég nefna gerð og innleiðingu rafrænnar ferilbókar en markmið þessa verkefnis er að efla gæði starfsþjálfunar með því að mynda samskiptavettvang nemenda, vinnustaða, skóla og annarra sem koma að starfsnámi um skilgreinda hæfniþætti þess starfs sem nemandinn lærir til. Um leið verður hlutverk skóla og vinnustaða varðandi vinnustaðanám skýrara.

Í sjötta lagi erum við að endurskoða og efla starfsemi vinnustaðanámssjóðs. Stjórnvöld hafa undanfarin ár greitt 1,1 milljarð kr. til fyrirtækja sem annast kennslu iðn- og starfsnema á vinnustað. Hér er um viðamikla starfsemi að ræða sem hefur skilað nemendum og fyrirtækjum ágóða í auknum mannauði. Í gangi er úttekt á vinnustaðanámssjóði með það að markmiði að gera gott betra.

Í sjöunda lagi hefur ráðuneytið stutt við ýmis fjölbreytt verkefni sem öll miða að því að fjölga nemendum í starfsnámi. Þar má nefna kynningar- og átaksverkefni eins og GERT, Boxið, Verkiðn, kvennastarf.is, Microbit og Evrópukeppni verk- og iðnnema. Til gamans má geta þess að Ásbjörn Eðvaldsson hlaut silfurverðlaun í þeirri keppni og það er mikið fagnaðarefni hversu mikill metnaður er lagður í það um allt kerfið til að efla þessar greinar.

Það er augljóslega verkefni okkar að fjölga nemendum í iðn-, verk- og starfsnámi og styrkja alla umgjörð í kringum námið. Þetta kallar að sjálfsögðu á virkt samstarf atvinnulífsins og menntakerfisins. Því fagna ég því frumkvæði sem Samtök iðnaðarins hafa sýnt með því að móta metnaðarfulla menntastefnu sem miðar að því að efla þessar greinar. Við erum að sjálfsögðu mjög ánægð með að menn séu að taka þetta frumkvæði og fylgjum því eftir.

Það eru vísbendingar um að aðgerðir okkar séu þegar farnar að skila árangri. Nemendum sem innritast á verk- og starfsnámsbrautir framhaldsskólanna hefur fjölgað umtalsvert og í sumum greinum um 33%. Í öðrum verkgreinum, til að mynda í Tækniskólanum, hefur umsóknum um nám í pípulögnum fjölgað um 59% milli ára og í málmiðngreinum fjölgaði um 61%. Þetta er mjög ánægjuleg þróun og ég held að þingheimur geti allur glaðst yfir því að við erum að sjá hér raunverulegar aðgerðir, raunverulegan árangur. Það er hugur í fólki og ég finn það í heimsóknum mínum í skóla að það er mikill meðbyr með þessum aðgerðum og forgangsröðun stjórnvalda í þágu uppbyggingar verk-, iðn- og starfsnáms.