149. löggjafarþing — 24. fundur,  24. okt. 2018.

staða iðnnáms.

[14:17]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, fyrir að vekja athygli á þessum vanda. Hlutfall þeirra sem stunda starfsnám í framhaldsskólum er, eins og hv. þingmaður nefnir, með öllu óásættanlegt og hefur svo verið um árabil. Það gengur mjög hægt að hnika þessu hlutfalli þrátt fyrir reglulegar heitstrengingar ráðamanna um annað. Og sambærilegar tölur í nágrannalöndum okkar eru með allt öðrum hætti.

Við tölum oft um það hversu einkennilega rík áhersla sé lögð á bóknám hér á Íslandi og við viðrum líka áhyggjur af því hversu erfitt margir nemendur eigi með að finna sig í þessu bóknámi öllu, hversu mikið þeim leiðist og hversu fjarlægt þetta bóknám er veruleika þeirra og áhugamálum og hvernig þessi ungdómsár, sem eiga að vera svo skemmtileg og full af daglegum nýjum uppgötvunum og tíðindum, einkennast allt of oft af doða og leiða.

Fólk sem notar saman heilann og hendurnar, sem einkennir einmitt manninn sérstaklega og er svo fallegt við manninn, virðist ekki nota njóta sömu virðingar og fólk sem notar bara heilann og stundum er eins og mestrar virðingar njóti fólk sem notar hvorugt.

Ráðherra boðar ýmsar leiðir til þess að efla fjölbreytni í námskostum fyrir ungt fólk hér á landi. Við vonum að sjálfsögðu að sú viðleitni leiði til árangurs. En mig langar þó að nefna að eitt þarf að koma hér til sem er ekki á færi stjórnvalda og það er hugarfarsbreyting meðal landsmanna í garð iðnmenntunar. Hana þarf að hefja til vegs og virðingar í huga þjóðarinnar, ekki sem neyðarúrræði fyrir þau sem ekki geta lært, eins og það er kallað, heldur einmitt sem góðan kost fyrir þau sem geta lært, en kannski ekki lært utan að af bók.