149. löggjafarþing — 24. fundur,  24. okt. 2018.

staða iðnnáms.

[14:20]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka umræðuna sem sett er á dagskrá í dag. Hún er mjög mikilvæg.

Fyrst langar mig að vekja athygli á því að í menntastefnu Samtaka iðnaðarins er stefnt að því að 20% grunnskólanema velji starfsmenntun árið 2025 og heil 30% árið 20–30. Þetta er stórt markmið en nauðsynlegt. Til þess að auka veg list-, tækni- og verkgreina, sem við getum sett undir hatt iðngreina í grunnskólum, vil ég sérstaklega nefna þetta atriði þar sem ég tel að við eigum að gera ráð fyrir iðnnámi strax á fyrstu dögum skólagöngu. Þá á ég einnig við leikskólastigið sem hið fyrsta skólastig.

Í stefnu okkar í Miðflokknum er kveðið á um að leggja eigi áherslu á iðnmenntun með sérstökum eyrnamerktum fjármunum í samvinnu við atvinnulífið og er vel hægt að hugsa sér að þessir fjármunir og samvinna nýtist á öllum skólastigum. Við verðum að hugsa um iðnnám sem alvörunám. Við verðum að taka valgreinar sem faggreinar á unglingastigi alvarlega og sem iðngreinar í stærra samhengi.

Það er þekkt að framboð valfaga er byggt á því hvaða leiðbeinendur fást til starfa hverju sinni. Því þarf að breyta. Og af því að við erum hér á þessum degi vil ég minnast á að við verðum með öllum tiltækum ráðum að fá fleiri stráka, karla, til að sækja nám í hefðbundnum kvennafögum og svo fleiri stelpur, konur, til að sækja nám í hefðbundnum karlafögum sem iðnnámið oft er.