149. löggjafarþing — 24. fundur,  24. okt. 2018.

staða iðnnáms.

[14:21]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Ég ætla fyrst að minnast dagsins. Megi hann verða okkur öllum hvatning.

Að málinu. Við ættum að eiga nægan fjölda iðnaðarmanna hér á landi þrátt fyrir brottflutning undanfarin ár og er öllum ljóst að aðdráttarafl iðnnáms hefur ekki verið nægt. Ástæður þess eru margar. Ég ætla ekki að greina þær en ég ætla að telja upp eitt og annað sem ég tel vera meðal þess sem þarf til að auka aðsókn.

Í fyrsta lagi er það hófleg námslengd. Það er fjölbreytni í skólun, ég er ekki að tala um skólum, heldur skólun, þar sem er t.d. enginn kynjamunur. Það er faglegt samræmt námsefni og þjálfun undir handleiðslu fullburða iðnmeistara. Það er traust fagþekking sem næst með náminu, samfella í þekkingu innan greina. Það er löggilding iðnar, réttindanám og aukin menntun möguleg. Það er spennandi nýsköpun. Það er eftirlit með fagmennsku að menn geti átt von á því sem í þetta fara í gegnum félög, stofnanir eða jafnvel einhvers konar handverks- eða iðnstofnun.

Þá er spurningin: Hvernig hefur tekist til? Ég hef fylgst með frá því að einkavæðing iðnnáms hófst í kringum 2008. Þar kemur fram ákveðinn undirtónn, sem við getum kallað svo, um styttingu námsins, takmarkaðri þjálfun á vinnustöðum undir ónógri handleiðslu þeirra sem kallast iðnmentorar, hvað sem það nú er, og síðan eru á borðinu hugmyndir um fráfall frá löggildingu mikilvægra starfa. Við getum horft til annarra landa sem farið hafa þessa leið og skoðað reynslu, skoðað og kannað hvað hefur komið fyrir fagþekkinguna og hvernig ónóg mönnun hefur komið fram, því að í raun og veru er reynslan af íslenskum iðnaðarmönnum í gegnum tíðina góð.

Ég ætla að hvetja þingmenn til þess að skoða skýrslu Ríkisendurskoðunar um starfsmenntun á framhaldsskólastigi, skipulag og menntun (Forseti hringir.) og hvetja ráðherra til að ríghalda í eitt orð í gegnum allan ferilinn, og það er fagþekking.