149. löggjafarþing — 24. fundur,  24. okt. 2018.

staða iðnnáms.

[14:24]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Í þessum málum þurfum við að horfa til fortíðar sem og framtíðar. Á síðasta þingi horfði Alþingi einmitt til framtíðar þegar það samþykkti þingsályktunartillögu um aðgengi að stafrænum smiðjum sem er verkmennt í rauninni í framtíðartækninni, framtíð fjórðu iðnbyltingarinnar.

Þar gekk Alþingi meira að segja mun lengra en ég sem flutningsmaður þorði að vona til að byrja með þar sem ég gerði fyrst bara ráð fyrir því aðgengi á framhaldsskólastigi en Alþingi víkkaði það út til grunnskólastigsins líka og að sjálfsögðu til allra annarra eins og grunnhugmyndafræðin um stafrænar smiðjur gengur út á. Lítil skref voru þar gerð að mjög stórum og ég hlakka mjög til að sjá framtíð þessarar þingsályktunar birtast í næstu fjármálaáætlun.

En það þarf einnig að horfa til fortíðar. Aðrar þjóðir hafa farið í gegnum svipaðar aðstæður og við erum að gera núna. Þar má t.d. líta til Finna sem tóku fyrir 40 árum upp menntastefnu um að gera sem best þeir gátu. Finnar stofnuðu tvær skólalínur, ef má segja svona almennt séð, þar sem er hefðbundið bóknám en svo til hliðar við það og alveg jafn hátt sett er skólastig um verkmennt eða „applied science“ til að útskýra í víðara samhengi hvað þeir gerðu í Finnlandi. Þar hefur margt mjög merkilegt verið gert á undanförnum áratugum. Vissulega rekast þeir á ákveðnar hindranir sem við lærum væntanlega af og gerum kannski betur ef við förum í svipaða átt, en ég tel tvímælalaust að við þurfum að læra af því sem Finnar settu sér fyrir 40 árum, hvaða reynslu og hvaða lærdóm þeir hafa dregið af þeirri vegferð og yfirfæra það á Ísland.