149. löggjafarþing — 24. fundur,  24. okt. 2018.

staða iðnnáms.

[14:26]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur fyrir umræðuna og um leið óska konum innilega til hamingju með daginn. Síðan ætla ég að snúa mér að drengjum í iðnnámi.

Staðan er þannig að drengir hafa átt mjög erfitt í grunnskólanámi og í sjálfu sér hefur ekki neitt betra tekið við í iðnnáminu. Ég á sex drengi og ég veit hvað liggur best fyrir þeim. Það er eitt sem er alveg gegnumgangandi og það er tölvunám. En í dag ferðu ekki eingöngu í tölvunám í skóla. Iðnskóli ætti að vera þannig upp settur að hægt væri að velja t.d. forritunarbraut og eingöngu læra hana eða kerfisstjórnun, en þú kemst ekkert upp með það.

Þegar ég var í iðnskóla, fór í nám í tréiðn, var ég látinn læra dönsku af bók um iðnað í Danmörku fyrir háskólamenntaða Dani. Kennarinn sem átti að kenna dönsku bókina þekkti ekki annað hvert orð því að þau voru svo tæknileg. Þetta var tilgangslausasta nám sem ég hef nokkru sinni komist í, að reyna að læra þessa dönsku, og hafði ekkert með smíðina að gera sem ég var að læra.

Þess vegna segi ég að við verðum að hugsa til framtíðar. Við erum að fá vélmenni. Ef einhver ungur drengur vill verða sérfræðingur í vélmennum, af hverju má hann þá ekki læra það? Af hverju erum við að troða ofan í hann einhverju öðru?

Við þurfum að fara að einfalda hlutina og gera það þannig að allir geti valið sitt og fundið það sem þeim er hugleikið, í hverju þeir eru bestir, en ekki alltaf setja alla í sama kassann og segja að allir þurfi að læra það sama til þess að komast á réttan áfangastað.