149. löggjafarþing — 24. fundur,  24. okt. 2018.

staða iðnnáms.

[14:28]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Umræðuefnið er a.m.k. 100 ára gamalt á Íslandi og með leyfi forseta langar mig að vitna í ritið Iðnskóli í eina öld þar sem er fjallað um skólaárið 1904 sem var fyrsta starfsár þess ágæta skóla:

„Helmingur allrar kennslu var þó teiknikennsla en þrátt fyrir áhuga skólastjórnenda á að auka kennslu í tæknigreinum varð ekkert af því vegna áhugaleysis meðal meistara og skilningsleysis yfirvalda.“

Síðar segir:

„Draumsýnin um teknískan skóla að danskri fyrirmynd eins og Jón Þorláksson vildi hafa hann varð ekki að veruleika.“

Í sama riti segir einnig um árið 1909, með leyfi forseta:

„Fjöldi iðngreina sem nemar luku sveinsprófi í takmarkaðist þó ekki af skólanum heldur af möguleikum iðnmeistara til að taka lærlinga.“

Eitthvað hljómar þetta kunnuglega.

Loks vil ég fá að vitna í rit Menntamálastofnunar um árið 1918, Kennslubók. Þar segir:

„Verklegt eða starfstengt nám stóð til boða í iðnskólum, sjómannaskóla, bændaskólum, verslunarskóla og kennaraskóla. Þá voru húsmæðraskólar á nokkrum stöðum. Þau fáu ungmenni sem áttu kost á að ganga menntaveginn fóru í Menntaskólann í Reykjavík og voru þar í sex ár.“

Þeir sem voru í hinum skólunum, að mati Menntamálastofnunar á þessari öld, gengu ekki menntaveginn. Bara þeir sem fóru í MR gengu menntaveginn. Ætli viðhorfið hafi breyst mikið? Verklegt nám er sett skör lægra en annað nám. Nemendur bera sjálfir ábyrgð á því að verða sér úti um verulegan hluta námsins með því að útvega sér samning hjá meistara. Það þarf að stokka þetta kerfi allt saman upp með róttækum hætti. Nemendur verða að vera þess fullvissir að geta hafið nám og lokið því á tilsettum tíma. Meistarakerfið (Forseti hringir.) í núverandi mynd er gengið sér til húðar. Það þarf að bjóða upp á þrepaskipt nám. Það þarf að bjóða upp á þverfaglegt nám og það þarf að endurskoða frá grunni kerfi löggiltra iðngreina. Ef við gerum ekkert af þessu (Forseti hringir.) munum við sennilega að 100 árum liðnum eða arftakar okkar flytja sömu ræðurnar um sömu vandamálin (Forseti hringir.) og bjóða fram sömu lausnirnar og ekkert gerist.