149. löggjafarþing — 24. fundur,  24. okt. 2018.

staða iðnnáms.

[14:34]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, fyrir að koma þessu mikilvæga máli á dagskrá. Eins og fram hefur komið ræðum við oft fjálglega um mikilvægi iðnnáms og annars slíks og flest þekkjum við á eigin skinni þegar okkur vantar sárlega iðnaðarmann.

Það er gott að heyra framsögu ráðherra um að hér leggi ráðherrann áherslu á verk-, iðn-, starfs- og tækninám og fylgi því svo eftir með ýmsum og fjölbreyttum aðgerðum þar sem komið er að málinu úr ýmsum áttum.

Mig langar aðeins til að minnast á að Framsóknarflokkurinn hefur lagt fram metnaðarfulla menntastefnu. Komið er inn á þróun fagháskóla. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Með þessu opnast nýjar leiðir fyrir fólk með iðnmenntun að bæta við ofan á hana menntun á háskólastigi. Þessi þróun styður við eflingu iðnnáms í framhaldsskólum þar sem hún opnar möguleika fyrir þá sem kjósa iðnnám. Um leið mætir þessi leið þörf atvinnulífsins fyrir sífellt betur menntað og sérhæft starfsfólk og nýjar námsleiðir þarf því að þróa í takt við þarfir atvinnulífsins.“

Háskólanám er auðvitað ekki fyrir alla og það er vel. En það er mikilvægt að þar lokist engar dyr fyrir þá sem sækja iðn- og verknám. Mig langar til að vita hver staðan á þessu máli er, hvort unnið er að því máli.

Líkt og hæstv. forseti hef ég komið í Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað og tekið þátt í tæknideginum sem þar er haldinn árlega. Þar hef ég verið með ungmennum og séð hvernig hugmyndir ljúkast upp fyrir þeim og sýn á eitthvað sem þeir vissu hreinlega ekki að væri til.

Þess vegna eru kynningar og áherslu á þær, að við höldum opnum leiðum fyrir ungmennin okkar á milli skólastiganna, mjög mikilvægar en þær eru ekki einfaldar. Það er dýrt í framkvæmd. Það kostar fyrirhöfn, tíma og peninga að viðhalda því en ég held að þetta gæti verið einn þátturinn í því að opna leiðina á milli til að opna augu fólks fyrir öllum möguleikunum sem í boði eru.