149. löggjafarþing — 24. fundur,  24. okt. 2018.

staða iðnnáms.

[14:38]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Íslenskt mál er ríkt af orðum sem segja margt í svona stuttu máli. Það eru tvö orð sem mér eru ofarlega í huga í dag. Það eru orðin verksvit og hugvit. Að auki höfum við líka bókvit og var því lengi haldið fram að það yrði ekki í askana látið. Það er engu líkara en að við höfum eytt allri 20. öldinni í að afsanna að bókvitið yrði ekki askana látið. Þess vegna höfum við nánast þröngvað fólki til þess að ganga mjög svipaðan veg í menntamálum.

Þess vegna fagna ég þessari umræðu og þakka málshefjanda. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir það sem kom fram í máli hennar um það sem verið er að gera. Ég held að á meðan við höfum talað um þessi mál, pólitíkusarnir, ár eftir ár, á sömu forsendum, sé fólk að hrynja út úr skólakerfinu, margt sér til óbætanlegs tjóns, vegna þess að það hefur ekki fengið nám við hæfi. Því hefur ekki verið kynnt nám við hæfi.

Ég er sammála þeim sem segja: Það þarf að byrja að kynna fyrr fyrir ungu fólki þá möguleika sem felast í iðnnámi. Það þarf að styðja við góðar tilraunir, eins og t.d. hafa verið gerðar í Árbænum þar sem er samvinnuverkefni á milli Árbæjarskóla og Hellisheiðarvirkjunar. Við þurfum að kynna ungmennum hvað það er virkilega gefandi, líka tekjulega, að vera iðnaðarmaður. Vegna þess að mörg undanfarin ár höfum við séð að ævitekjur iðnaðarmanns eru að öðru jöfnu hærri en ævitekjur langskólagengins manns.

Það er þó ekki aðalatriðið í málinu þó að það sé stórt atriði. Aðalatriðið er að fólk fái að næra hæfileika sína, að það fái að næra verksvit sitt. Það fái að næra hugvit sitt og þróa. Vegna þess að það er líka grunnurinn að því að þetta þjóðfélag rísi almennilega upp á lappirnar og verði sjálfbært í handverki.

Ég held að við gætum litið til nágrannalanda, mér dettur í hug bæði Danmörk og Þýskaland, þar sem við sjáum hvernig farið hefur verið allt öðruvísi að handverksnámi í áratugi og jafnvel hundruð, en við höfum gert. Við eigum að taka okkur það til fyrirmyndar, herra forseti.