149. löggjafarþing — 24. fundur,  24. okt. 2018.

staða iðnnáms.

[14:43]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Aðeins meira til fortíðar og framtíðar. Fyrir tveimur áratugum settu Hollendingar sér stefnu um helmingi meiri mat fyrir helmingi minna af auðlindum. Frá árinu 2000 hefur vatnsnotkun í landbúnaði minnkað um 90%. Skordýraeitri hefur verið nær útrýmt í gróðurhúsum og sýklalyfjanotkun minnkuð um 60%. Holland er annað stærsta fæðuútflutningslandið á eftir Bandaríkjunum þrátt fyrir að vera 270 sinnum minna en Bandaríkin. Þetta litla land, Holland, er annað stærsta fæðuútflutningsland heimsins af því að þeir tóku þá stefnu fyrir 20 árum síðan. Ástæðan þar var áhersla og stuðningur stjórnvalda við menntun í landbúnaði sem og stefna í þeirri verkgrein.

Árangurinn lætur ekki á sér standa, eins og sést augljóslega. Þetta er í fortíðinni en er eitthvað sem við getum lært af. En framtíðin er þarna líka, hún er í þingsályktunartillögu sem liggur fyrir þinginu, og það er kjötrækt, svo að ég nefni hana við öll tækifæri. Þetta er gömul tækni sem er að ná ákveðinni fótfestu og því fyrr sem við náum þeirri fótfestu, þeim mun betra er það fyrir svo marga hluti, fyrir sýklalyfjanotkun, fyrir umhverfið, fyrir loftslagsmálin. Sú tækni býður upp á alveg óþrjótandi möguleika á að fæða mannkynið ef út í það er farið. Hún snýst ekki um að rækta dýr til fæðu heldur að rækta bara kjötið. Það þarf ekki allan kjúklinginn fyrir kjúklingalærið, aðeins eina frumu.

Þetta eru hugmyndir um það hvernig Alþingi þarf að horfa til framtíðar varðandi ákveðna verkmennt, ákveðna hugmynd, eins og Finnarnir gerðu, eða „applied science“ svo að ég (Forseti hringir.) reyni að vera nákvæmur því að hægt er að misskilja hvað þau orð þýða nákvæmlega þegar þýtt er úr einu tungumáli yfir á annað.