149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

launamunur kynjanna.

[10:35]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir alveg ágætisræðu. Ég velti því fyrir mér hvort svar ráðherra hafi verið að hvort tveggja sé rétt, að launamunurinn sé bæði 5% og 26%, eins og haldið er fram á kvennafri.is.

Ég spyr því hæstv. forsætisráðherra: Er svarið að launamunurinn sé 5% og 26%, eftir því hvernig mælikvarðarnir eru eða hver reiknar? Það er mjög mikilvægt að skilaboðin sem er verið að senda, ekki síst frá stjórnvöldum, séu sem líkust í það minnsta, að við séum að bera saman epli og epli en ekki appelsínur og gúrkur eða eitthvað því um líkt.

Ég held því að mikilvægt sé að hæstv. forsætisráðherra skeri úr um hvort sá launamunur sem ríkisstjórnin talar um, sem stjórnvöld „presentera“, sem stjórnvöld eru að berjast við sé sá sem kvennafri.is birtir og talar um eða sá sem hæstv. dómsmálaráðherra skrifar um á Facebook-síðu sinni.

Ég ætla ekki að halda því fram að dómsmálaráðherra hafi rangt fyrir sér eða forsætisráðherra viti ekki hver stefnan er en það væri hins vegar ágætt að fá að vita hver stefnan eða túlkunin er.