149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

launamunur kynjanna.

[10:37]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir á ný. Eins og ég kom að í máli mínu eru til ólíkar aðferðir við að mæla launamun kynjanna. Ég útskýrði þar ágætlega, að ég tel, í fyrra svari og þarf ekki að fara nánar út í það.

Stefna stjórnvalda er alveg skýr. Það á að jafna launamun kynjanna. Gildir þá einu hvort við erum að tala um leiðréttan eða óleiðréttan launamun. Það er grundvallarhugsunin í þeirri stefnu sem ég veit að hv. þingmaður er mér algjörlega sammála um og hefur verið góður talsmaður fyrir, að Ísland eigi að skipa sér í fremstu röð þegar kemur að kynjajafnrétti.

Ef hins vegar hæstv. ráðherrar eða hv. þingmenn, hvort sem er í mínum flokki eða öðrum, vilja ræða ólíkar aðferðir við tölfræðimælingar, hvort sem er á sínum Facebook-síðum eða annars staðar, er ég líka mikill talsmaður þess að stjórnmálamenn megi ræða mál. Ég hef enga þörf fyrir að setja lok á þá potta.

Stóra málið í þessum málum er að við í þessum sal eigum að vera stolt af þeim árangri sem náðst hefur í því að leiðrétta misrétti kynjanna en gera okkur um leið grein fyrir að við erum hvergi nærri komin á leiðarenda. Stundum líður mér í þessari umræðu eins og endamarkið (Forseti hringir.) færist alltaf fjær. Þetta er eins og hlaup þar sem dómarinn færir alltaf endamarkið fjær, sama hvað maður hleypur lengi.