starfsgetumat.
Virðulegi forseti. Hugtakið starfsgetumat höfum við heyrt klingja hér árum saman. Hugsunin að baki starfsgetumatinu virðist í upphafi ekki vera vond hugsjón, alls ekki. En það er að koma í ljós æ betur hvernig hún leggst í þá sem eiga að verða fyrir slíku mati, öryrkjarnir sjálfir.
Þann 10. október sl. sendi Öryrkjabandalagið frá sér ályktun eftir stjórnarfund þar sem það mótmælti harðlega starfsgetumati. Mig langar að ræða það örlítið við hæstv. velferðarráðherra.
Lítum til þess hvernig þessi gjörningur hefur gengið fyrir sig í löndunum í kringum okkur. Við skulum líta til Bretlands þar sem á þriðja þúsund öryrkja sviptu sig lífi fyrstu tvö árin eftir að starfsgetumatið þar tók gildi. Hvað á það að þýða að ætla að taka út það kerfi sem við þekkjum núna, sem við teljum þó að hafi á margan hátt skilað sínu þó að það megi svo sannarlega bæta um betur? Það er akkúrat það sem Öryrkjabandalagið fer fram á, að við betrumbætum það örorkukerfi sem við búum við í dag og gerum það skilvirkara, sanngjarnara og afnemum skerðingar gagnvart öryrkjum í kerfinu.
Eins og hæstv. ráðherra hefur gengið fram í þessum efnum á að troða þessu kerfi ofan í kokið á okkur öryrkjum, eins og hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson sagði svo réttilega í pontunni í síðustu viku, hreinlega án þess að við höfum neitt um það að segja.
Því spyr ég hæstv. ráðherra: Hvers vegna er svo mikilvægt að koma þessu starfsgetumati í gegn núna og á því formi og undir þeim formerkjum sem þar eru? Það er t.d. enga vinnu að fá fyrir öryrkja sem (Forseti hringir.) óska eftir hlutastörfum.