starfsgetumat.
Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Hann talar um sátt, í sátt og samlyndi. Það er engin sátt um þetta starfsgetumat. Í starfshópnum sem skipaður var á síðasta ári, í júní minnir mig, er enginn einasti öryrki.
Ég vil ítreka að kjörorð öryrkja er: Ekkert um okkur án okkar. Ég er öryrki og ég segi: Ekkert um okkur án okkar. Þetta er ekki sátt. Það er rennt algjörlega blint í sjóinn. Og þegar hæstv. ráðherra vísar til Danmerkur og segir að þetta hafi gengið vel bið ég hann að skoða það pínulítið betur því að þær upplýsingar og þau gögn sem ég hef lesið benda ekki til þess að svo sé.
Það eru á fimmta hundrað öryrkjar sem óska eftir því að komast í hlutastörf og engin úrræði eru fyrir þessa einstaklinga, enga vinnu er að fá og enginn virðist vilja ráða þá í vinnu. Þá skýtur svolítið skökku við að ætla að hrifsa þá út úr því kerfi sem þeir (Forseti hringir.) þekkja nú og veitir þeim eina öryggið sem þeir hafa og ætla að henda þeim út í óvissuna.