starfsgetumat.
Virðulegur forseti. Ég vil bara ítreka að helstu hagsmunasamtök á þessu sviði, Öryrkjabandalag Íslands og Þroskahjálp, hafa aðild að þeirri vinnu sem er í gangi.
Hv. þingmaður kom sérstaklega inn á að það væri mikil þörf á að byggja upp fleiri störf fyrir þá sem eru með skerta starfsgetu, að margir með skerta starfsgetu biðu eftir að komast inn á vinnumarkaðinn. Það er einmitt hluti af þeirri vinnu sem þarf að fara fram við þessar breytingar, þ.e. að búa atvinnulífið undir það að geta tekið við einstaklingum með skerta starfsgetu, geta tekið við þessari fjölbreyttu flóru fólks. Það er m.a. verkefnið. Ég get ekki sagt það nægilega oft að það er gríðarlega mikilvægt að undirbúa atvinnulífið og allt samfélagið undir breytta hugsun, vegna þess að hennar er svo sannarlega þörf. Það kemur mjög skýrt fram í máli hv. þingmanns þegar hann talar um að það sé skortur á störfum. Það er einmitt hugsunin sem þarf að innleiða. Það er hluti af þeirri vinnu (Forseti hringir.) sem er í gangi, verður að vera það, af því að við þurfum breytta samfélagshugsun. Við viljum að allir geti tekið þátt í samfélaginu, við viljum að allir geti (Forseti hringir.) tekið þátt á vinnumarkaðnum. Það er þannig íslenskt (Forseti hringir.) samfélag sem við þurfum að byggja upp.