149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

birting dóma og nafna í ákveðnum dómsmálum.

[10:48]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þennan mikla áhuga á máli sem ekki er fullbúið í dómsmálaráðuneytinu en hefur verið lagt inn á samráðsgáttina einmitt í þeim tilgangi að leita samráðs um mál sem ekki er lokið.

Það kann auðvitað að vera nýlunda hér fyrir þingmenn og aðra að mál skuli vera kynnt og að óskað sé eftir samráði á meðan það er í vinnslu. Það er nú einmitt tilgangur samráðsgáttarinnar, sem opnuð var fyrr á þessu ári, að mál kæmu þangað inn mun fyrr, á fyrri stigum, þannig að hægt væri að leita samráðs.

Það kann að vera að hv. þingmaður misskilji frumvarpið eitthvað. Með þessu frumvarpi er ekki verið að leggja til jafn veigamiklar breytingar og mér heyrðist hv. þingmaður reifa hér. Það er þannig í dag að í tilteknum málum í nokkuð mörgum málaflokkum eru héraðsdómar ekki birtir. Hér er verið að leggja til að bætt verði við í nokkrum viðkvæmum málaflokkum. Þá er einnig verið að leggja til að dómar séu nafnhreinsaðir í meira mæli en nú er gert. Það er vissulega mikilvæg breyting.

Á því er sú skýring að trekk í trekk hefur verið misbrestur á því að einhverju leyti að dómstólarnir hafi fylgt þeim reglum sem þeir sjálfir hafa sett sér og þeim ákvæðum í lögum sem kveða á um nafnleynd í tilteknum málum, brotaþolum til hagsbóta — ekki sérstaklega brotamönnum til hagsbóta heldur brotaþolum.

Kallað hefur verið eftir því hjá dómstólum. Dómstólasýslan, sem tók nýverið til starfa, hefur skoðað þessi mál og frumvarpið eins og það er lagt fram núna, að mestu leyti. Þó voru gerðar einhverjar breytingar á því áður en málið fór inn á samráðsgáttina. Þar eru að mestu leyti hugmyndir dómstólasýslunnar að höfðu víðtæku samráði við m.a. Blaðamannafélag Íslands, lögmenn og dómara.

Ég skil alveg að það kunni að vera uppi mismunandi sjónarmið um þessi mál og ég ætla að fá þau fram eins og hægt er áður en þetta mál verður lagt fram á þinginu í endanlegri mynd.