149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

birting dóma og nafna í ákveðnum dómsmálum.

[10:50]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég misskil ekkert þetta frumvarp. Það kemur mjög skýrt fram í því að hætt skuli að nefna nöfn í öllum dómum er varða sakamál, bara hætta að birta nöfn allra sakamanna á Íslandi. Það kemur mjög skýrt fram í 1. gr. þessa frumvarps að í dómum og úrskurðum í sakamálum skuli gæta nafnleyndar um þá sem þar eru greindir.

Í rökstuðningi með frumvarpinu er það einnig tekið fram að þar sem stundum er gætt nafnleyndar um brotaþola skuli eitt yfir alla ganga í þessum efnum, það sé m.a. rökstuðningurinn fyrir þessu frumvarpi.

Ég átta mig á því að þetta er á samráðsstigi núna en ég skil ekki hvernig svona frumvarp kemst út úr dómsmálaráðuneytinu með öllum þeim lögfræðingum sem starfa þar. Ég næ því ekki. Er ætlunin með frumvarpinu að hætta að birta nöfn allra brotamanna á Íslandi? Stendur það til?

Ég spyr hæstv. dómsmálaráðherra að því, vegna þess að það stendur í þessu frumvarpi.