149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

birting dóma og nafna í ákveðnum dómsmálum.

[10:51]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Það kemur einmitt skýrt fram að lagt er til með frumvarpinu varðandi birtingu dóma á internetinu að menn verði nafnhreinsaðir, m.a. með tilliti til jafnræðis við sakamenn. Réttarstaðan í dag er sú að tilteknir brotamenn, t.d. þeir sem gerast brotlegir gagnvart börnum um svívirðilega glæpi, kynferðisbrot gegn börnum, eru ekki nafngreindir í dómum í þeim málum.

Hins vegar eru dómar sakamanna sem eru dæmdir fyrir miklu minni glæpi birtir á internetinu með nöfnum þeirra. Þar eru þeir dómar um aldur og ævi. Löngu eftir að sakamenn og hinir dæmdu hafa afplánað og tekið út refsingu sína, í samræmi við þá dóma sem þeir hafa hlotið, eru dómarnir á netinu.

Mér finnst það til umhugsunar og ég held að Alþingi ætti við þinglega meðferð málsins að velta því virkilega fyrir sér hvort það sé hlutverk ríkisvaldsins að fylgja refsingum eftir með þeim hætti út í hið óendanlega, út ævi dæmdra manna, löngu eftir að þeir hafa afplánað og tekið út sína refsingu.