149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

hækkun lægstu launa og hækkanir í þjóðfélaginu.

[10:55]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á mikilvægu máli en spurningar hans voru þó allmargar. Ég mun gera mitt besta til að svara þeim. Ég hlýt þó að andmæla því fyrst þegar hv. þingmaður segir að kjaraviðræður séu komnar í hnút áður en þær byrji. Þetta er auðvitað ekki rétt. Sú ríkisstjórn sem nú situr hefur líklega átt meira og reglubundnara samráð við aðila vinnumarkaðarins en við höfum séð áratugum saman í íslensku samfélagi. Það ætti hv. þingmaður að vita með alla sína reynslu úr stjórnmálum. Hér hafa verið haldnir reglubundnir fundir og ég legg áherslu á að það samráð þarf að verða formfast og þar skiptir máli að öll heildarsamtök komi að málum. Ég hef upplýst nýkjörna formenn heildarsamtaka, og bíð að sjálfsögðu eftir úrslitum af ASÍ-þingi, um að slíkt samráð muni halda áfram að loknu ASÍ-þingi því að mikilvægt er að þeir aðilar eigi gott samtal. Kjaraviðræður eru ekki á milli ríkisins og ASÍ heldur eru það atvinnurekendur og ASÍ og einstök félög innan ASÍ, svo rétt sé með farið, sem þar munu setjast við borðið.

Það er það sem ég hef sagt í því máli öllu saman. Við hlustum hins vegar á áherslur verkalýðshreyfingarinnar og stjórnvöld munu geta gert sitt til að greiða fyrir kjarasamningi. Það eru stjórnvöld þegar að gera. Hv. þingmaður nefnir fjármagnstekjuskatt. Við samþykktum að hækka hann um 2 prósentustig, 10% hækkun á fjármagnstekjuskatti, um síðustu jól. Það að innkoma af fjármagnstekjuskatti lækki — og þetta veit hv. þingmaður ósköp vel þótt hann láti eins og hann viti það ekki í pontu — er vegna breytinga á skattstofninum. Hvað leggjum við til í kringum þessi fjárlög? Jú, við leggjum til að hækka barnabætur þannig að þær skerðist ekki við lágmarkslaun. Ég er enn að bíða eftir því að hv. þingmaður lýsi ánægju sinni með það, enda veit ég að við erum sammála um það mál. Við erum að hækka persónuafslátt umfram neysluvísitölu, sem gagnast best tekjulægstu hópunum. Þær breytingar sem eru fram undan munu miðast við að auka jöfnuð í skattkerfinu og það er nokkuð sem ég tel að við hv. þingmaður séum sammála um og þeir fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar sem hafa tjáð sig um þau mál.