149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

um fundarstjórn.

[11:08]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég bað örstutt um orðið vegna orða hæstv. forsætisráðherra sem féllu í svari til mín vegna fyrirspurnar varðandi kjaramál og gengismál. Hæstv. forsætisráðherra sagði að hún hefði saknað mín í umræðu í síðustu viku um peningamál. (Gripið fram í: Við söknuðum þín.) — Þið söknuðuð mín, ég skil það vel. En mig langar að upplýsa bæði þingheim og forsætisráðherra um að ég var fjarverandi í síðustu viku vegna þess að ég tók þátt í fundi Alþjóðaþingmannasambandsins þannig að ég var að starfa á vegum þingsins á alþjóðavettvangi. Það er ástæðan fyrir því að ég var ekki í þeirri umræðu.

Mig langar líka að draga það fram að í þeirri umræðu tóku fjölmargir þingmenn Samfylkingarinnar mjög ríkan þátt því að Samfylkingin áttar sig á því að það er fátt mikilvægara að ræða í þessum sal en einmitt hvernig við högum peningamálum okkar. Ég ætla ekki að fara í efnislega umræðu hér en það er mikilvægt að ræða hvernig peningamálin þróast hér í landi, það hefur bein áhrif hversu dýrt það er að lifa búa hér á landi. Þess vegna veigra ég mér alls ekki við hvers kyns umræðu þegar kemur að peningamálum. En ég vildi einfaldlega að þetta kæmi fram svo enginn misskilningur væri um af hverju ég var ekki hérna í síðustu viku.