149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

skýrsla milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC).

[11:23]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegi forseti. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi í morgun að fara í heimsókn á Veðurstofu Íslands ásamt umhverfis- og samgöngunefnd. Við fengum þar góðar útskýringar á því hvað fram undan væri. Þar var t.d. talað um náttúruvá, þá flokka loftslagsbreytinga sem teljast vera náttúruvá.

Þegar við veltum því fyrir okkur sem erum búin að rýna í þá skýrslu sem um er rætt núna get ég vel tengt við það sem fram undan er og hvað við þurfum að gera o.s.frv. Ég ætla aðeins að hlaupa á því hvað stendur mér næst. Þá horfi ég á mig sem litla Íslendinginn í því hvaða hætta er fram undan sem snýr að mér. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við veltum öll fyrir okkur hvaða hætta sé fram undan í þeim loftslagsbreytingum sem fram undan eru. Fyrir það fyrsta er súrnun sjávar grafalvarlegt mál og vísindamenn spá því að hún muni aukast. Hún hefur gríðarleg áhrif á gengd fiskstofna, þróun þeirra o.s.frv. Við sem fiskveiðiþjóð þurfum að velta því verulega fyrir okkur hvað er fram undan í því efni.

Einnig eru það þær ógnanir sem við sjáum fyrir okkur. Úrkoma mun aukast og við eigum á hættu að auknum flóðum og skriðuföllum. Það hefur allt áhrif á líf okkar. Ég ætla að koma að því síðar í ræðu á eftir hvað ég tel að við þurfum að gera.