149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

skýrsla milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC).

[11:25]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S):

Forseti. Ég þakka mikilvæga umræðu. Loftslagsmálin eru til framtíðar eitt af stærstu málunum, en ekki bara til framtíðar heldur strax í dag. Mig langar því að nota tækifærið, þegar við ræðum hér skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, og ræða ágæta aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum til ársins 2030 sem var kynnt í fyrstu útgáfu núna í haust og er í samráðsgátt þar til nú um mánaðamótin.

Markmiðið með aðgerðaáætlun í loftslagsmálum er, eins og hæstv. ráðherra kom inn á, að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og stuðla að aukinni kolefnisbindingu þannig að Ísland geti staðið við markmið Parísarsamningsins til 2030 og markmið ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutleysi árið 2040.

Þetta er heildstæð áætlun og samanstendur af 34 aðgerðum á mörgum sviðum með tvær megináherslur, í fyrsta lagi orkuskipti í samgöngum, með sérstakri áherslu á rafvæðingu í vegasamgöngum þar sem litið er svo á að okkar stærsta tækifæri til að ná þeim skuldbindingum sem Ísland hefur undirgengist með Parísarsáttmálanum sé að skipta olíu út fyrir umhverfisvæna orkugjafa.

Hins vegar er átak í kolefnisbindingu þar sem skógrækt og landgræðsla gegna lykilhlutverki og markvisst verður dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda með endurheimt votlendis. Í aðgerðaáætluninni eru einnig aðgerðir tengdar úrgangsmálum, landbúnaði, sjávarútvegi, fræðslu o.fl. Það sem skiptir máli í þessu er að þetta er ekki eingöngu verkefni hins opinbera. Allt samfélagið þarf að taka þátt í þessu með okkur, hver og einn einstaklingur, fyrirtæki, stofnun o.s.frv.

Talandi um það langar mig kannski að enda þessa ræðu á örlítið jákvæðum nótum: Í skýrslu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, sem kom út í desember í fyrra, kemur fram að með einföldun megi segja að sjávarútvegurinn hafi fyrir sitt leyti þegar náð markmiði Parísarsamkomulagsins þar sem það miðar við að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 40% árið 2030 en sjávarútvegurinn hafði þegar árið 2016 minnkað sína losun á gróðurhúsalofttegundum um 43% frá árinu 1990.

Þó kemur fram í skýrslunni að það sé ekki talið nóg heldur þurfi að gera betur. Ég tel að það séu jákvæðar vísbendingar um það sem koma skal, að gera betur.