149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

skýrsla milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC).

[11:33]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Það ber að þakka þá mikilvægu umræðu sem hér er. Það er mikill vandi á ferðinni. Hann er orðinn nokkurn veginn óumdeildur og mun hafa mikil áhrif á náttúru og samfélag okkar mannanna hér á jörðinni, líka á Íslandi, ef við reynum ekki að bregðast við. Má þar nefna fjölmörg atriði eins og orkuskipti, endurheimt votlendis, taka upp almenningssamgöngur í ríkara mæli, takast á við plastvandann og beita grænum hvötum, horfa til landbúnaðar um breytingar þar og svo margt fleira.

Við höfum líka gengist undir skuldbindingar sem fela það í sér, sem skiptir máli í þessu samhengi líka, að ef við stöndum okkur ekki munum við jafnvel þurfa að greiða háar fjárhæðir í eins konar sektir fyrir að standa okkur ekki.

Það er því mjög mikilvægt að við tökum þessi mál föstum tökum. Það er auðvitað margt sem hægt er að segja en lítill tími gefst til.

Ég vil þó draga fram eitt atriði sérstaklega, þ.e. orkuskipti varðandi bílaumferð. Þar höfum við einna mestu stjórnina og getum gripið til aðgerða fljótt og vel. Skattlagning umferðar skiptir þar máli. Það skýtur því skökku við að dregið hefur verið úr fyrri áformum um hækkun á kolefnisgjaldi á eldsneyti bifreiða. Ég hlýt að spyrja hvernig það samræmist markmiðunum um að draga úr losun frá umferð að lækka kolefnisgjaldið og hverfa frá þeim áformum sem uppi voru í tíð (Forseti hringir.) fyrrverandi fjármálaráðherra um að hækka það gjald talsvert.