149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

skýrsla milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC).

[11:44]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu hér og kannski ekki síst málshefjanda, hv. þm. Smára McCarthy, fyrir að vera svolítið lausnamiðaður í umræðu sinni. Það er það sem við þurfum.

Við ræðum hér lokaviðvörun vísindasamfélagsins eins og hæstv. ráðherra kom réttilega inn á og útlitið er vissulega svart. Verkefni okkar snýst fyrst og fremst um að tryggja áframhaldandi lífsgæði þrátt fyrir þær breytingar sem við þurfum að gera á mannlegri hegðun. Ég tel að svarið við því sé samhentar aðgerðir stjórnvalda og vísindamanna en líka atvinnulífsins og almennings.

Við þurfum að tryggja samfélagslega ábyrgt markaðshagkerfi. Við þurfum að tryggja að hlýnun jarðar verði ekki meiri en 1,5°C, en við þurfum líka að huga að því að aðlagast þeim breytingum sem óhjákvæmilega verða. Við þurfum t.d. að huga að innviðum okkar, samfélagsmannvirkjum, fráveitum og ýmsu öðru, eins og komið var inn á, sem tengist náttúruvá.

En það skyldi ekki vera að mitt í öllum hörmungunum sé tækifæri? Þekkingariðnaðurinn á Íslandi, nýsköpun okkar sem tengist umhverfismálum, er kannski tækifæri fyrir þjóðina. Ég held að við höfum ýmislegt fram að færa þegar kemur að loftslags- og umhverfismálum. Við getum hreinlega horft á þetta sem útflutningsvöru og við höfum margt fram að færa þegar kemur að þróunaraðstoð er lýtur að loftslagsmálum, hvort sem er varðandi bindingu eða aðrar tæknilegar útfærslur. Við getum einfaldlega orðið miðstöð þekkingar og nýsköpunar í loftslagsmálum og norðurslóðamálum.

Ég held að það sé líka mikilvægt að horfa til þess að margar þeirra aðgerða sem við þurfum að fara í skila víðtækum árangri, ekki bara í loftslagsmálum. Mig langar þá sérstaklega að nefna almenningssamgöngur sem geta vissulega skilað árangri í loftslagsmálum en líka svo mörgu öðru; bættu samfélagi, bættu umferðaröryggi og bættri lýðheilsu.

Tækifærin eru víða mitt í hörmungunum en ég legg áherslu á að við eigum vissulega að ræða umhverfismálin miklu oftar í þessum sal.