149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

skýrsla milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC).

[11:47]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa góðu umræðu og þakka hv. þm. Smára McCarthy fyrir að hefja máls á þessu mikilvæga umræðuefni. Margir góðir punktar hafa komið fram í dag í þessari umræðu sem vert er að hugsa um og það er alveg ljóst að þingheimur er sammála um það hversu mikilvægt málefnið er.

Þingheimur er að mörgu leyti sammála um það líka hvað þarf að gera. Þetta snýst bara um aðferðafræði. Hvað getum við gert til þess að draga úr losun? Við eigum alltaf að hugsa sem einstaklingar líka. Við eigum að hugsa um hvernig við drögum úr kolefnisfótspori okkar, umhverfisfótspori o.s.frv., ekki bara að segja að ríkið þurfi að gera þetta og gera hitt. Það þurfa allir að leggjast á árarnar í því að reyna að draga úr losun og reyna að koma í veg fyrir þá vá sem stendur fyrir dyrum.

Hvað getum við gert? Það er búið að koma hér fram. Það sem ég vil leggja aðeins áherslu á og undirstrika enn frekar eru þau miklu tækifæri sem við höfum varðandi skógrækt og endurheimt votlendis og ekki má gleyma landgræðslunni. Þar getum við bætt gríðarlega í, að græða upp land, en við þurfum bara aukið fjármagn til þess. Það eru mjög margar hendur og mjög mikil þekking fyrir hendi úti um allt land til þess að græða upp land. Það er mun auðveldara að planta skógi eftir að menn hafa grætt upp landið. Þá getum við margfaldað þann árangur í að kolefnisjafna það sem við erum að gera.