149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

skýrsla milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC).

[11:54]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að taka einlæglega undir með hv. þingmanni hvað hér er undir og fagna áhuga og stuðningi þingheims og sérstaklega málshefjanda við þetta mál. Það er gríðarlega mikilvægt að ræða þetta hér og það miklu oftar en við gerum.

Við höfum lengi verið aftarlega á merinni í loftslagsmálum en ég vil meina að nú sé að verða viðsnúningur. Við þurfum að hjálpast að við þetta allt saman. Hér hefur m.a. verið rætt um tölur og ég er sammála því að við þurfum að ná betur utan um það hverju hver aðgerð er að skila, það hef ég sagt áður.

En talandi um tölur þá verð ég að leiðrétta þetta með vegasamgöngurnar. Þær eru 32% af beinum skuldbindingum Íslands. Einn mikilvægasti þátturinn í að draga úr skuldbindingunum er olíunotkunin þannig að við verðum að takast á við það.

Hér hefur mörg hvatningin komið fram og mörgum þeirra eru þegar gerð skil í aðgerðaáætlun eða jafnvel í utanríkisstefnu landsins. Það er eitt sem ég vil nefna hér sem við eigum eftir að koma í framkvæmd og það er að útbúa aðlögunaráætlun fyrir loftslagsbreytingar á Íslandi. Það er verkefni sem mun hefjast á næstunni hjá ráðuneytinu.

Herra forseti. Við skulum ekki gleyma því heldur að aðgerðir eru hafnar og verkefnið fram undan er að klára að hrinda í framkvæmd aðgerðaáætluninni sem var kynnt í september. Við verðum líka að vera meðvituð um það að í ljósi þessa risavaxna verkefnis þurfum við að meta á hvaða sviðum við getum verið róttækari og gert enn betur og taka tillit til slíks við endurskoðun áætlana okkar.

Ég er mjög ánægður með að ný aðgerðaáætlun markar straumhvörf hvað varðar fjármagn og afl til loftslagsmála. Það eitt og sér tel ég vera stórtíðindi í umhverfisvernd á Íslandi. Ég fer ríkari heim af þessum fundi en þegar ég kom til hans og fyrir það vil ég þakka þingheimi kærlega.